Körfubolti

Magnús bætti metið hans Herberts

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson
Magnús Þór Gunnarsson Mynd/Daníel

Magnús Þór Gunnarsson skoraði fimm þriggja stiga körfur í 41 stigs sigri Íslands á San Marínó í gær, 94-53, en þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg. Hann bætti með þessu met Herbert Arnarsonar og er orðinn sá leikmaður sem hefur skorað flestar þriggja stiga körfur á Smáþjóðaleikum.

Magnús Þór hefur nú skorað 47 þriggja stiga körfur í 20 leikjum sínum á Smáþjóðaleikum en en 141 af 177 stigum hans á leikunum hafa komið með skotum fyrir utan þriggja stiga línuna eða 79,7 prósent stiganna. Magnús Þór hefur sett niður 2,4 þrista að meðaltali í leik.

Magnús skoraði átta þrista á Möltu 2003, átján þrista í Andorra 2005, sex þrista í Mónakó 2007, tíu þrista á Kýpur 2009 og svo fimm þrista í fyrsta leik á leikunum í Lúxemborg í gær.

Magnús Þór hefur aðeins einu sinni skorað fleiri þriggja stiga körfur í einum leik á Smáþjóðaleikum en hann skorað sex þrista í í leik á móti Andorra 1. júní 2005 en það ár fóru leikarnir einmitt fram í Andorra.

Herbert Arnarson skoraði 44 þriggja stiga körfur í 18 leikjum á Smáþjóðaleikununm frá 1993 til 2001 en Loga Gunnarsson vantaði síðan aðeins eina þriggja stiga körfu til að jafna metið á leikunum á Kýpur fyrir fjórum árum.

Flestar þriggja stiga körfur á Smáþjóðaleikum:

Magnús Þór Gunnarsson    47

Herbert Arnarson    44

Logi Gunnarsson    43

Teitur Örlygsson    38

Valur Ingimundarson    36

Páll Axel Vilbergsson    36

Guðjón Skúlason    34

Falur Harðarson    21




Fleiri fréttir

Sjá meira


×