Körfubolti

Sýndu sitt rétta andlit í flottum sigri í Rúmeníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson átti frábæran leik.
Haukur Helgi Pálsson átti frábæran leik. Mynd/Stefán
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta sýndi sitt rétta andlit í dag þegar liðið vann átta stiga útisigur á Rúmeníu, 72-64, í öðrum leik liðsins í undankeppni EM 2015. Íslenska liðið steinlá í fyrsta leik á móti Búlgaríu en hélt voninni um sæti í undanúrslitum með þessum flotta sigri.

Haukur Helgi Pálsson, fékk lítið að vera með í Búlgaríu vegna villuvandræða, en átti frábæran leik í dag. Haukur kom að þrettán fyrstu stigum íslenska liðsins og skoraði 11 stig í fyrsta leikhlutanum. Haukur Helgi endaði leikinn með 24 stig.

Jakob Sigurðarson setti niður mikilvægar körfur í leiknum og var með 15 stig, Pavel Ermolinskij skoraði 12 stig og Jón Arnór Stefánsson skoraði 10 stig.

Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson gældi við þrennuna en hann var með 7 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar.

Íslenska liðið komst í 16-2 og var 25-10 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Rúmenarnir minnkuðu muninn í tíu stig fyrir hálfleik, 38-28, og náðu honum niður í þrjú stig áður en íslensku strákarnir náðu aftur að slíta sig frá þeim rúmensku.

Hér fyrir neðan má sjá beina textalýsingu frá leiknum.



Leikurinn búinn: Íslenska liðið landar flottum átta stiga sigri, 72-64, og það þrátt fyrir að vera án Jóns Arnórs Stefánssonar í lokin en Jón Arnór fór útaf með 5 villur. Haukur Helgi Pálsson endar með 24 stig í þessum leik og átti þessi 21 árs strákur frábæran leik í Rúmeníu í dag.

4. leikhluti: Íslenska liðið er 13 stigum yfir, 70-57, þegar rúmar þrjár mínútur eru eftir og þetta lítur vel út. Pavel er kominn með 12 stig og Haukur Helgi er með 22 stig.

4. leikhluti: Jón Arnór Stefánsson kemur aftur inn og er fljótur að verða fjórðu villuna á Andrei Mandache, lykilmann í rúmenska liðinu. Jón Arnór á svo stoðsendingu á Pavel sem kemur íslenska liðinu í 66-54 þegar tæpar fimm mínútur eru eftir.

4. leikhluti: Jakob Sigurðarson er búinn að setja niður mikilvægar körfur í dag og kemur íslenska liðinu í 63-54 með þristi. Jakob er kominn með 15 stig í leiknum.

4. leikhluti: Jón Arnór Stefánsson fær sína fjórðu villu þegar sjö mínútur eru eftir og þarf að setjast á bekkinn. Rúmenar minnka muninn niður í sex stig, 60-54.

4. leikhluti: Hlynur Bæringsson kemur íslenska liðinu aftur ellefu stigum yfir, 60-49 og er farinn að gæla við þrennuna. Hlynur er nú með 7 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar þegar sjö og hálf mínúta er eftir.

4. leikhluti: Ragnar Nathanaelsson treður í annað skiptið í leiknum eftir stoðsendingu frá Hlyni Bæringssyni. Hlynur er kominn með sjö stoðsendingar.  Ísland er níu stigum yfir, 58-49.

3. leikhluti búinn: Haukur Helgi Pálsson endar leikhlutann á því að setja niður tvo þrista á sömu mínútunni og kemur Íslandi ellefu stigum yfir, 56-45, fyrir lokaleikhlutann. Haukur er kominn með 20 stig í leiknum.

3. leikhluti: Jakob Sigurðarson kemur sterkur inn og setur fimm stig í röð. Hann er búinn að skora 12 stig í leiknum og Ísland er nú átta stigum yfir, 50-42.

3. leikhluti: Munurinn er orðinn þrjú stig, 45-42 og hefur ekki verið minni síðan í upphafi leiks. Tæpar þrjár mínútur eftir af þriðja leikhlutanum.

3. leikhluti: Hlynur Bæringsson tekur sitt fimmta frákast og gefur sína fimmtu stoðsendingu á Jón Arnór Stefánsson sem kemur Íslandi í 45-39. Hlynur er líka kominn með 5 stig.

3. leikhluti: Hlynur Bæringsson tekur sinn annan ruðning í leiknum og kemur í veg fyrir að Rúmenar minnki muninn í tvö stig. Ísland er 43-39 yfir og Peter Öqvist tekur leikhlé.

3. leikhluti: Haukur Helgi Pálsson hefur skoraði þrjú fyrstu stig íslenska liðsins í seinni hálfleik og kemur muninum aftur upp í sex stig, 41-35, með því að setja niður tvö vítaskot. Haukur er kominn með 14 stig í leiknum.

3. leikhluti: Rúmenar hafa skorað fimm af fyrstu sex stigum seinni hálfleiks og munurinn er bara sex stig, 39-33.

Hálfleikur: Íslenska liðið er tíu stigum yfir í hálfleik, 38-28. Liðið lagði grunninn að forystunni með frábærum fyrsta leikhluta sem íslensku strákarnir unnu 25-10. Rúmenar náðu að minnka muninn niður í fimm stig en íslenska liðið náði góðum endaspretti í hálfleiknum. Haukur Helgi Pálsson er stigahæstur með 11 stig (öll í 1. leikhluta), Jón Arnór Stefánsson hefur skorað 8 stig og Pavel Ermolinskij er með 7 stig. Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson er með 5 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar.

2. leikhluti: Fimm íslensk stig í röð og munurinn aftur orðinn tíu stig, 36-26. Jón Arnór setti nú síðast niður þrist og er því kominn með 8 stig. Rúmenar taka leikhlé.

2. leikhluti: Rúmenar hafa unnið síðustu sjö mínútur 18-6 og nú reynir vikilega á íslenska liðið sem er þó enn með 31-26 forystu. Strákarnir þurfa að finna aftur taktinn frá því í fyrsta leikhlutanum.

2. leikhluti: Rúmenar komu sterkir inn í annan leikhlutann og eru búnir að að minnka muninn niður í fimm stig, 29-24. Góð byrjun íslenska liðsins kom liðinu í góða stöðu en leikurinn er nú að jafnast.

1. leikhluta lokið Ísland leiðir 25-10 að loknum fyrsta leikhluta. Haukur Helgi hefur farið á kostum í íslenska liðinu en eins og tölurnar gefa til kynna hefur vörnin verið í aðalhlutverki. Haukur Helgi hefur skorað 11 stig og Jakob Örn og Jón Arnór fimm stig hvor.

1. leikhluti Haukur Helgi hefur farið mikinn á fyrstu fimm mínútum leiksins. Framherjinn er búinn að troða tvisvar og heimamenn aðeins skorað tvö stig eftir fimm mínútur. Ísland hefur hitt úr sex af fyrstu átta skotum sínum.

1. leikhluti Haukur Helgi Pálsson fékk lítið að vera með í leiknum á móti Búlgaríu vegna villuvandræða en hann hefur átt þátt í öllum þrettán stigum íslenska liðsins á fyrstu fjórum mínútum. Ísland er 13-2 yfir og Haukur er kominn með 7 stig og 2 stoðsendingar.

1. leikhluti Rúmenar skora fyrstu tvö stigin en Haukur Helgi Pálsson svarar með þriggja stiga skoti.

Leikurinn hafinn Pave Ermolinskij, Jón Arnór Stefánsson, Hlynur Bæringsson, Jakob Sigurðarson og Haukur Helgi Pálsson eru í byrjunarliði Íslands.

Fyrir leik Peter Öqvist, þjálfari Íslands, varð fyrir miklum vonbrigðum með úrslitin í Búlgaríu líkt og leikmenn liðsins. Liðið hafði spilað mjög vel í undirbúningsleikjum sínum í sumar en sá aldrei til sólar í Búlgaríu.

Fyrir leik Strákarnir okkar steinlágu í fyrsta leik sínum í undankeppninni í Búlgaríu á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×