Körfubolti

Finnar fóru létt með Svía á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Finnland er með fullt hús eftir tvær umferðir á Evrópumótinu í körfubolta í Slóveníu en Finnar unnu 21 stigs sigur á nágrönnum sínum Svíum í dag, 81-60. Króatar og Lettar unnu bæði á sigurkörfum í blálokin eftir æsispennandi leiki en Úkraína vann sjö stiga sigur á Ísrael og hefur unnið fyrstu tvo leiki sína eins og Finnar og Lettar.

Eins og í sigrinum á Tyrkjum í gær var það frábær annar leikhluti sem réði mestu um þróun leiksins. Finnar unnu hann 21-4 í dag og voru í framhaldinu 17 stigum yfir í hálfleik, 48-31.

Gerald Lee skoraði 14 stig fyrir Finna og Kimmo Muurinen var með 12 stig en þá var hinn öflugi Petteri Koponen með 10 stig og 6 stoðsendingar. Jeffery Taylor var atkvæðamestur hjá Svíum með 19 stig og Jonas Jerebko skoraði 12 stig en þeir eru báðir í NBA-deildinni, Taylor með Charlotte Bobcats og Jerebko með Detoit Pistons.

Króatar unnu eins marks sigur á Georgíu 77-76 þar sem að miðherjinn Ante Tomic skoraði sigurkörfuna níu sekúndum fyrir leikslok. Dontaye Draper var stigahæstur hjá Króötum með 16 stig og Bojan Bogdanovic skoraði 15 stig. Ante Tomic var með 7 stig og 7 stoðsendingar. Ricky Hickman skoraði 20 stig fyrir Georgíumenn sem náðu ekki að fylgja eftir frábærum sigri á Póllandi í gær.

Úkraínumenn unnu sjö stiga sigur á Ísrael, 74-67, þar sem Sergii Gladyr skoraði mest eða 17 stig. Úkraína er búið að vinna tvo fyrstu leiki síns en Ísrael sem var með Íslandi í riðli tapaði sínum öðrum leik í röð.

Kristaps Janicenoks tryggði Lettum eins stigs sigur á Svartfjallalandi, 73-73, þegar hann skoraði sigurkörfuna sex sekúndum fyrir leikslok en Janicenoks var stigahæstur hjá lettneska liðinu með 15 stig. Tyrese Rice skoraði 24 stig fyrir Svartfellinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×