Körfubolti

Frakkar í undanúrslitin á EM í Körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker.
Tony Parker. Mynd/AFP
Frakkar tryggðu sér sæti í undanúrslitum á Evrópumóti karla í körfubolta eftir tíu stiga sigur á gestgjöfum Slóvena, 72-62, í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. Tony Parker, leikmaður San Antonio Spurs, skoraði 27 stig í leiknum en Frakkar munu mæta Spánverjum í undanúrslitununum.

Þetta er annað Evrópumótið í röð þar sem Frakkar eru með þeirra fjögurra bestu en þeir töpuðu í úrslitaleik á móti Spánverjum í Litháen fyrir tveimur árum. Nú fá Frakkar tækifæri til að hefna fyrir það tap í næsta leik sem verður á föstudaginn.

Slóvenar voru 12-10 yfir eftir fyrsta leikhlutann en Frakkar komust yfir í 26-24 fyrir hálfleik með því að skora fjögur síðustu stig hans. Frakkar tóku síðan endanlega frumkvæðið með 10-0 spretti í upphafi seinni hálfleiksins. Slóvenar héngu í Frökkum en franska liðið var sterkari og endaði Evrópuævintýri heimamanna.

Tony Parker skoraði eins og áður sagði 27 stig fyrir Frakka þar af komu átta þeirra af vítalínunni. Nicolas Batum skoraði 14 stig og Boris Diaw var með 10 stig. Goran Dragic var með 18 stig og 6 stoðsendingar hjá Slóveníu og bróðir hans Zoran Dragic skoraði 12 stig.

Frakkar tryggðu sér þáttökurétt í næstu heimsmeistarakeppni með því að komast í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×