Körfubolti

Helena skoraði 31 stig fyrir Miskolc í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Daníel
Helena Sverrisdóttir átti frábæran leik með ungverska liðinu Aluinvent DVTK Miskolc þegar liðið tapaði með þremur stigum á heimavelli á móti ungverska liðinu PINKK Pecsi 424, 63-66, í Mið-Evrópu deildinni í körfubolta í kvöld.

Helena skoraði 31 stig í leiknum en hún hitti úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum. Hún var einnig með fimm fráköst og 2 stolna bolta.

Helena skoraði 14 stig í fyrri hálfleiknum en bætti síðan við tólf stigum í þriðja leikhlutanum sem Miskolc vann 24-18. Hún skoraði síðan sjö stig í lokaleikhlutanum.

Helena hóf leikinn á því að setja niður tvo þrista og koma Miskolc í 6-2 í upphafi leiks en það gekk lítið það sem eftir var fyrsta leikhlutanum og  Miskolc-liðið var ellefu stigum undir eftir fyrsta leikhlutann, 11-22.

Miskolc vann næstu tvo leikhlutana 19-12 og 24-18 og var tveimur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 54-52. PINKK Pecsi 424 skoraði hinsvegar fimm fyrstu stig fjórða leikhlutans og tók frumkvæðið. Helena minnkaði muninn í eitt stig með fimm stigum á stuttum tíma en nær komust þær ekki og leikmenn Pecsi fögnuðu sigri.

Aluinvent DVTK Miskolc er í 7. sæti í Mið-Evrópu deildinni með sex sigra og níu töp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×