Handbolti

Aron danskur meistari með KIF

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Vísir/Getty
Aron Kristjánsson gerði KIF Kolding Köbenhavn að dönskum meisturum í handbolta í kvöld eftir sigur á Álaborg í síðari viðureign liðanna í lokaúrslitum, 19-17.

KIF vann fyrri leik liðanna, 23-19, og hefði því mátt tapa með fjögurra marka mun í kvöld til að tryggja sér meistaratitilinn.

Staðan í hálfleik var 12-11, KIF í vil. Lítið var skorað fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiksins en staðan þegar tíu mínútur voru eftir var 15-14, Álaborg í vil. Þá hrökk KIF í gang og tryggði sér sigurinn með því að skora fimm mörk í röð.

Kasper Hvidt átti stórleik í marki KIF og var með nálægt 50 prósenta hlutfallsmarkvörslu í leiknum í kvöld.

Aron tók við KIF eftir áramóti og hefur náð frábærum árangri með liðið. Liðið varð bikarmeistari undir hans stjórn. Honum stendur til boða að halda áfram með liðið en Aron er einnig þjálfari íslenska landsliðsins.

Leikurinn var sá síðasti hjá Joachim Boldsen, þaulreyndum fyrrum landsliðsmanni Dana, sem leggur nú skóna á hilluna eftir glæsilegan feril.


Tengdar fréttir

Aron: Ég hef fengið nokkur símtölin í vetur

Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, mun þjálfa danska úrvalsdeildarliðið KIF Kolding Kaupmannahöfn út þetta tímabil en hann fékk leyfi frá HSÍ.

Aron bikarmeistari í Danmörku

KIF Kolding, lið Arons Kristjánssonar, varð í dag danskur bikarmeistari í handbolta eftir sigur á Bjerringbro/Silkeborg í úrslitaleik.

Tíu sigurleikir í röð hjá Aroni Kristjáns

Kif Kolding hélt í kvöld áfram sigurgöngu sinni undir stjórn íslenska landsliðsþjálfarans Arons Kristjánssonar þegar liðið vann fjögurra marka sigur á Bjerringbro-Silkeborg í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.

Aron tekur við KIF Kolding

Aron Kristjánsson, karlalandsliðsþjálfari Íslands í handbolta, mun þjálfa danska úrvalsdeildarliðið KIF Kolding Kaupmannahöfn út þetta tímabil en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×