Handbolti

Alfreð fær nýjan framkvæmdastjóra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thorsten Storm verður næsti framkvæmdastjóri Kiel
Thorsten Storm verður næsti framkvæmdastjóri Kiel Vísir/Getty
Thorsten Storm, framkvæmdastjóri Rhein-Neckar Löwen, færir sig um set og tekur við sama starfi hjá þýska handknattleiksfélagsins Kiel eftir næsta tímabil. Frá þessu er greint á heimasíðum Kiel og Rhein-Neckar Löwen.

Storm tekur við starfi framkvæmdarstjóra Kiel af Klaus Elwardt sem tilkynnti á dögunum að hann myndi láta af störfum hjá Kiel næsta sumar.

"Þetta var ekki ákvörðun gegn Rhein-Neckar Löwen, heldur voru það heimahagarnir sem kölluðu," sagði Storm sem ætti að kannast ágætlega við sig hjá Kiel.

Hann er fæddur í Kellinghusen í Schleswig-Holstein og lék með Kiel á árunum 1989-1990 og starfaði svo sem yfirmaður markaðsmála hjá félaginu á árunum 1995-2002.

Storm, sem verður fimmtugur á árinu, tók við starfi framkvæmdastjóra hjá Flensburg árið 2002 og á tíma hans hjá félaginu varð Flensburg einu sinni þýskur meistari (2004) og þrisvar sinnum bikarmeistari (2003-2005).

Storm færði sig svo um set til Rhein-Neckar Löwen árið 2007 þar sem hann hefur verið síðan. Hann réði Guðmund Guðmundsson sem þjálfara liðsins og undir hans stjórn unnu Ljónin EHF-keppnina 2013 og voru svo grátlega nærri því að tryggja sér þýska meistaratitilinn í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×