Íslenski boltinn

Olnbogaskot Glenn líklega ekki fyrir aganefnd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir ólíklegt að olnbogaskot Jonathan Glenn, leikmanns ÍBV, verði tekið fyrir af aganefnd KSÍ.

Eins og fjallað hefur verið um sást Glenn gefa Guðmundi Reyni Gunnarssyni, leikmanni KR, olnbogaskot í leik liðanna um helgina.

Samkvæmt upplýsingum Vísis eru til fordæmi fyrir því að ofbeldisatvik í knattspyrnuleikjum hér á landi séu tekin upp eftir á þó slíkt sé afar sjaldgæft.

„Meginreglan er sú að leikurinn er dæmdur inn á vellinum,“ sagði Þórir í samtali við Vísi í dag. Framkvæmdarstjóri KSÍ hefur heimild að láta taka fyrir atvik sem að mati hans koma óorði á íþróttina.

„Það er á grensunni að sú heimild nýtist í þessu tilviki en ég er ekki búinn að skoða atvikið nógu vel til að svara því hér og nú.“

„En almenna reglan er sú að dómarinn dæmir leikinn inni á vellinum og aganefnd hefur ekki heimild til að taka upp einstök atvik eftir myndbandsupptökum.“

„Ég sé því ekki fyrir mér að ég muni grípa inn í hvað þetta tilvik varðar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×