Handbolti

Kretzschmar sótillur út í IHF

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefan Kretzschmar er eitt þekktasta andlit handboltaheimsins í Þýskalandi.
Stefan Kretzschmar er eitt þekktasta andlit handboltaheimsins í Þýskalandi. Vísir/Getty
Stefan Kretzschmar, fyrrum landsliðsmaður Þýskalands og einn þekktasti sérfræðingur um handbolta þar í landi, er hundóánægður með framferði forráðamanna Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, í tengslum við HM í Katar.

Eins og alkunna er fékk Þýskalandi keppnisrétt á HM í Katar í gegnum krókaleiðir eftir að keppnisréttur Ástralíu var afturkallaður. En nú hefur komið í ljós að þýsku ríkissjónvarpsstöðvarnar ZDF og ARD munu ekki sýna frá mótinu og óljóst að einhver annar geti tekið við keflinu með svo stuttum fyrirvara.

Þýski sjónvarpsmarkaðurinn er sá stærsti í handboltaheiminum og því skiptir málið miklu máli fyrir marga aðila. Kretzschmar segir að þetta hafi mikil áhrif á framtíð handboltans í Þýskalandi.

„Börnin fá nú ekki tækifæri til að horfa á fyrirmyndir sínar spila handbolta. Allt okkar uppbyggingarstarf í handboltanum er í hættu,“ sagði Kretzschmar í viðtali við Bild um helgina.

Sjónvarpsstöðin beIN Sports keypti sýningarréttinn á HM fyrir bæði mótið í Katar sem og keppnina árið 2017. Þar á bæ voru menn tregir til að ganga að samningum við ZDF og ARD þar sem stöðvarnar eru aðgengilegar í gegnum gervihnött í mörgum öðrum löndum.

beIN Sports er í eigu Al-Jazeera sjónvarpsrisans í Katar sem greiddi IHF rúma tólf milljarða króna fyrir réttinn.

„Ég næ ekki utan um þetta og hef engan skilning á málinu. IHF er með fulla vasa af pening en gerði handboltanum í Evrópu engan greiða með þessum glórulausa samningi. Vonbrigðin mín í þessu máli gætu vart verið stærri en þau eru.“

„Nú bíður maður þess að sjá hver viðbrögðin verða við þessu hjá styrktaraðilum, fyrirtækjum og stuðningsmönnum. Afleiðingar þessarar hörmungar eru ekki enn fyllilega ljósar en ég tel að þetta sé bara byrjunin.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×