Handbolti

Íslenskir sigrar í Skandinavíu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Atli Ævar Ingólfsson
Atli Ævar Ingólfsson mynd/guif
Eskilstuna Guif í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta og Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta unnu bæði góða sigra í dag þar sem íslenskir línumenn voru áberandi.

Vignir Svavarsson skoraði fjögur mörk fyrir Midtjylland, öll í seinni hálfleik, sem lagði Lenvig-Thyborön 27-25. Vignir fékk tvær brottvísanir í leiknum, báðar í fyrri hálfleik.

Midtjylland var einu marki undir í hálfleik en leikurinn var í járnum allan leikin en heimamenn í Midtjylland voru sterkari á lokasprettinum og tryggðu sér mikilvægan sigur.

Midtjylland er með 18 stig í 15 leikjum í efri hluta deildarinnar. Lenvig-Thyborön er í 12. sæti.

Eskilstuna Guif lagði Önnereds 26-23 á heimavelli eftir að hafa verið 12-10 yfir í hálfleik. Guif náði góðu forskoti seint í leiknum og vann mun öruggari sigur en lokatölurnar gefa til kynna.

Atli Ævar Ingólfsson skoraði 4 mörk fyrir Guif og Aron Rafn Eðvarðsson átti góðan leik í markinu en hann varði 39% þeirra skota sem hann fékk á sig. Hann varði 15 skot, þar af eitt víti.

Guif er með 20 stig í efri hluta deildarinnar eftir 16 leiki. Önnereds er á botninum með 4 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×