Handbolti

Alexander hjá Löwen til 2017 þrátt fyrir gylliboð annarra félaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Alexander Petersson hefur framlengt samning sinn við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen það var tilkynnt á heimasíðu félagsins í dag.

Alexander kom til Löwen frá Füchse Berlin árið 2012 og hefur verið lykilmaður í liðinu síðan þá, þrátt fyrir að hafa glímt við meiðsli síðustu árin.

Hann hefur verið heill heilsu í vetur og staðið sig vel. Gamli samningurinn átti að renna út í lok tímabilsins en nú er ljóst að hann verður áfram í herbúðum félagsins til loka tímabilsins 2017.

„Það er mikill heiður fyrir mig að fá að spila áfram hjá Löwen. Við erum með frábæran leikmannahóp og erum þess utan góðir vinir utan vallarins. Ég vil endurgjalda það traust sem félagið hefur sýnt mér og vona að við náum góðum árangri saman,“ sagði Alexander í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins.

Hann staðfesti að honum hafi boðist að fara til annarra félaga þar sem hærri laun voru í boði. „En mér og fjölskyldu minni líður afskaplega vel á þessu svæði og maður fórnar því ekki svo auðveldlega.“

Þjálfarinn Nikolaj Jacobsen lýsti yfir ánægju sinni með þetta. „Alex er algjör lykilmaður fyrir okkar liði, bæði í vörn og sókn. Hann er þar að auki góður drengur sem býr yfir góðu viðhorfi til íþróttarinnar. Það er mikilvægt fyrir ungu leikmennina okkar að vera með leikmann eins og hann í liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×