Handbolti

Gríska liðið Megas varð fyrir valtara í Safamýri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurbjörg Jóhannsdóttir sækir að marki Megasar í gær.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir sækir að marki Megasar í gær. vísir/Pjetur
Kvennalið Fram átti ekki í miklum vandræðum með að vinna gríska liðið GAS Megas Alexandros í fyrri leik liðanna í 3. umferð Áskorendakeppni Evrópu í handbolta í gær.

Fram tók völdin strax í byrjun leiks og gríska liðið átti engin svör við 3-3 vörn Fram í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 25-7. Framkonur héldu áfram að keyra yfir Megas í seinni hálfleik og unnu að lokum 27 marka sigur, 43-16.

„Þetta var klárlega auðveldara en við bjuggumst við,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn, en hún og stöllur hennar vissu lítið sem ekkert um gríska liðið fyrir leikinn.

Yfirburðir Fram voru gríðarlegir, enda Megas-liðið margfalt slakara en lið Fram. Seinni leikurinn, sem fer fram klukkan 16.00 í dag, verður formsatriði, en Steinunn segir þó að Fram þurfi að halda einbeitingu.

„Við þurfum að vinna í því að halda einbeitingu, en við höfum stundum misst hana í leikjum. Vonandi uppskerum við annan svona sigur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×