Fótbolti

Allegri: Khedira spilar sinn fyrsta leik fyrir Juventus í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Khedira hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin ár.
Khedira hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin ár. vísir/getty
Massimiliano Allegri, knattspyrnustjóri Juventus, hefur staðfest að Sami Khedira muni þreyta frumraun sína með liðinu gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Khedira, sem kom til Juventus á frjálsri sölu frá Real Madrid í sumar, hefur glímt við meiðsli framan í læri og þ.a.l. ekkert komið við sögu hjá ítölsku meisturunum á tímabilinu.

„Það er langt síðan Sami Khedira spilaði síðast en hann tekur þátt í leiknum á morgun (í dag),“ sagði Allegri á blaðamannafundi í gær.

„Ég veit ekki hversu lengi hann endist en hann mun spila,“ bætti Allegri við áður en hann kom viðstöddum á óvart og opinberaði byrjunarlið Juventus í kvöld.

Gianluigi Buffon verður á sínum stað í markinu og varnarlínan verður ítölsk, með þá Andrea Barzagli, Leonardo Bonucci og Giorgio Chiellini. Juan Cuadrado og Patrice Evra verða svo á köntunum í leikkerfinu 3-5-2.

Khedira og Paul Pogba verða á miðjunni og Álvaro Morata og Paulo Dybala frammi. Allegri nefndi aðeins 10 leikmenn en líklegast þykir að sá ellefti verði annað hvort Roberto Pereyra eða Hernanes.

Juventus er með þrjú stig í D-riðli Meistaradeildarinnar en liðið vann 1-2 sigur á Manchester City í 1. umferð riðlakeppninnar.


Tengdar fréttir

Varnarmaður Juventus settur í bann vegna ölvunaraksturs

Martin Cacares, úrúgvæski varnarmaður Juventus, missti ökuréttindin í dag og var settur í tímabundið bann hjá Juventus, eftir að hafa verið gripinn við stýrið undir áhrifum áfengis í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×