Enski boltinn

Pellegrini: Þetta var heppnissigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero fagnar hér sigurmarki sínu.
Sergio Aguero fagnar hér sigurmarki sínu. Vísir/EPA
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, viðurkennir að heppnin hafi verið með hans mönnum í 2-1 sigri á Borussia Mönchengladbach í Meistaradeildinni í gær.

Gladbach-liðið komst í 1-0 en Joe Hart, markvörður Manchester City, hafði áður varið víti og fjölda annarra dauðafæra frá leikmönnum þýska liðsins.

Nicolas Otamendi jafnaði metin og það var síðan Argentínumaðurinn Sergio Aguero sem skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.

„Við höfðum heppnina með okkur í þessum leik," sagði hinn 62 ára gamli Manuel Pellegrini eftir leikinn. Manchester City hafði tapað á móti Juventus, West Ham og Tottenham í síðustu fjórum leikjum sínum og sigurinn var því nauðsynlegur.

„Við áttum ekki skilið að tapa leikjunum á móti Juventus og West Ham. Við áttum kannski ekki skilið að vinna í kvöld en við gerðum það," sagði Pellegrini.

Manchester City mátti alls ekki við því að vera stigalaust eftir tvær fyrstu umferðir Meistaradeildarinnar en eftir þennan sigur er liðið í þriðja sæti riðilsins.

Liðið á nú aftur ágæta möguleika á því að komast áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar þó að mikið sé enn eftir að riðlakeppninni.

Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, var ekki með í gær vegna meiðsla og Yaya Toure fór meiddur af velli í hálfleik. Næst er leikur við Newcastle um helgina og svo tveggja vikna landsleikjahlé.

„Við þurfum á þessu landsleikjahléi að halda því það eru átta leikmenn meiddir og ekki of margir möguleikar í stöðunni. Það er mikilvægt fyrir leikmennina okkar að ná sigri á móti Newcastle á laugardaginn og eftir það eru fimmtán dagar í næsta leik," sagði Pellegrini.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×