Fótbolti

Ole Gunnar Solskjær í viðræður um að taka við norska landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar að yfirgefa Molde?
Ole Gunnar að yfirgefa Molde? vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde, er á leið í viðræður við norska knattspyrnusambandið um að taka við landsliði Noregs. Þetta kemur fram á vef norska blaðsins Verdens Gang í kvöld.

Öystein Neerland, yfirmaður knattspyrnumála hjá Molde, staðfestir við VG að það er búið að gefa þjálfaranum leyfi til að ræða við sambandið um að verða mögulega næsti landsliðsþjálfari.

Norska landsliðið hefur verið þjálfaralaust síðan í nóvember þegar Per-Mathias Högmo var sagt upp störfum. Norska liðið er í svakalegri lægð og er aðeins með þrjú stig eftir fjóra leiki í undankeppni HM 2018. Það hefur fallið hratt niður heimslistann undanfarin misseri.

Fram kemur í frétt VG að Solskjær er með klásúlu í samningi sínum sem gefur honum færi á að yfirgefa Molde og taka við norska landsliðinu bjóðist honum það. Það kemur væntanlega í ljós á næstu dögum hver niðurstaðan verður.

Ole Gunnar Solskjær er að stýra Molde-liðinu í annað sinn en hann gerði það að Noregsmeisturum árið 2011 og 2012. Eftir misheppnaða dvöl hjá Cardiff í ensku úrvalsdeildinni hélt hann aftur heim og fékk starfið hjá Molde að nýju árið 2015.

Hann keypti Víkinginn Óttar Magnús Karlsson, efnilegasta leikmann Pepsi-deildarinnar í fyrra, eftir að síðasta tímabili hér heima lauk en svo gæti farið að framherjinn ungi fái ekki að spila deildarleik í Noregi undir stjórn fyrrverandi Manchester United-hetjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×