Fótbolti

Sparkað eftir tapið rosa­lega gegn Bayern

Sindri Sverrisson skrifar
Vincent Kompany og Sergej Jakirovic tókust í hendur fyrir leik Bayern og Dinamo, sem reyndist síðasti leikur Jakirovic sem stjóri Dinamo.
Vincent Kompany og Sergej Jakirovic tókust í hendur fyrir leik Bayern og Dinamo, sem reyndist síðasti leikur Jakirovic sem stjóri Dinamo. Getty/Sebastian Widmann

Þjálfarinn Sergej Jakirovic fékk bara að stýra Dinamo Zagreb í einum leik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í vetur því hann var rekinn eftir 9-2 tapið gegn Bayern München á þriðjudaginn.

Dinamo Zagreb hóf Meistaradeildina á afar erfiðum leik gegn Bayern á útivelli og lenti þar 3-0 undir, en náði svo óvænt að minnka muninn í 3-2 í upphafi seinni hálfleiks. Það dugði þó skammt og Bayern sallaði inn sex mörkum til viðbótar. Harry Kane skoraði fernu í leiknum, þar af þrjú mörk úr vítum.

Þetta var stærsta tap í sögu Dinamo Zagreb og einnig í fyrsta sinn sem að liðið fær á sig níu mörk í Meistaradeildinni. Tveimur dögum síðar var Jakirovic sagt upp.

Jakirovic tók við Dinamo fyrir tímabilið 2023-24 og undir hans stjórn vann liðið bæði deild og bikar í fyrstu tilraun.

„Það mikilvægasta í svona aðstæðum er að við sýnum mennsku, og að við setjum hagsmuni Dinamo í forgang,“ sagði Velimir Zajec, forseti félagsins, á heimasíðu þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×