Fótbolti

Heillaður af Íslandi og spáir íslenska liðinu sæti í sextán liða úrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins. Vísir/Getty
Íþróttafjölmiðlamenn heimsins keppast nú við að skrifa um og spá fyrir um gengi þjóða á heimsmeistaramótinu í fótbolta sem hefst í Rússlandi í næstu viku en þar er Ísland með í fyrsta sinn.

Mennirnir á bandaríska íþróttablaðinu Sports Illustrated hafa allir birt sína spá en í henni má sjá hvaða liðum þeir spá inn í sextán liða úrslitin og hvernig útsláttarkeppnin spilast.

Blaðamennirnir sem spáðu hjá Sports Illustrated eru þeir Avi Creditor, Luis Miguel Echegaray, Brian Straus, Grant Wahl og Jonathan Wilson.

Þeir Avi, Luis, Brian og Jonathan hafa enga trú á íslenska landsliðinu og spá því að Argentína og Króatía eða Nígería komist upp úr íslenska riðlinum. Avi og Brian spá meira að segja Króatíu sigri í riðlinum en Luis er sá eini sem telur að Nígería komist áfram.





Íslandsvinurinn Grant Wahl er aftur á móti sér á báti þegar kemur að gengi íslensku strákanna. Hann hefur skrifað mikið um íslenska landsliðið í aðdraganda keppninnar og er höfundur umfjöllunnar um íslenska liðið sem endaði á forsíðu Sports Illustrated á dögunum.

Grant Wahl er algjörlega heillaður af Íslandi og spáir því að Ísland slái Argentínu út og að Króatía fari með strákunum okkar inn í sextán liða úrslitin.





Ef þessi spá hjá Grant á að ganga eftir þá verður íslenska landsliðið að ná frábærum úrslitum í fyrsta leik á móti Argentínu. Pressan er öll á Lionel Messi og félögum og samkvæmt spá aðalfótboltasérfræðings Sports Illustrated þá verður hún greinilega of mikil.

Grant Wahl spáir því að Spánverjar fari alla leið og tryggi sér heimsmeistaratitilinn með sigri á Belgíu í úrslitaleiknum. Auk þess að hafa trú á íslenska landsliðinu þá telur hann að Úrúgvæ slái út Frakka og komist í undanúrslitin. Hann spáir einnig að Króatar komist í átta liða úrslitin en tapi þar á móti Spáni.

Avi Creditor spáir því að Brasilíumenn verði heimsmeistarar eftir sigur á Spánverjum í úrslitaleiknum. Hann er á því að Argentínumenn slái Frakka út í 16 liða úrslitunum og að Brasilía og Argentína mætist í undanúrslitum.

Luis Miguel Echegaray er einnig á því að Brasilía vinni en hann telur að þeir vinni heimsmeistara Þjóðverja í úrslitaleiknum og hefni fyrir 7-1 stórtapið í undanúrslitum á HM 2014.

Brian Straus spáir aftur á móti Frökkum heimsmeistaratitlinum eftir sigur á Þjóðverjum í úrslitaleiknum. Brian er á þvío að Belgar slái úr Brasilíumenn en detti síðan út á móti Frökkum.

Jonathan Wilson spáir Spánverjum heimsmeistaratitlinum eftir sigur á Brasilíu í úrslitaleiknum. Frakkar og Þjóðverjar munu að hans mati tapa í undanúrslitunum.

Það má nálgast spá þeirra félaga með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×