Viðskipti erlent

Google gæti drepið auglýsingavara

Kjartan Kjartansson skrifar
Chrome frá Google er mest notaði vefvafri heims.
Chrome frá Google er mest notaði vefvafri heims. Vísir/AFP
Breytingar sem tæknirisinn Google er með í smíðum á Chrome-vefvafranum gæti gert netverjum mun erfiðara fyrir að loka á auglýsingar á vefnum og koma í veg fyrir að fyrirtæki safni upplýsingum um þá. Google segir að breytingarnar séu enn aðeins á teikniborðinu.

Auglýsingavarar eru viðbætur sem hægt er að fá fyrir vefvafra. Þeir koma meðal annars í veg fyrir að vefsíður birti auglýsingar í nýjum glugga. Hugbúnaðarfyrirtækið Ghostery sem býður upp á auglýsingavara segir að fyrirhugaðar breytingar á Chrome myndu í reynd „eyðileggja“ auglýsingavara og persónuvernd eins og hún er í dag.

Fleiri fyrirtæki hafa lýst svipuðum áhyggjum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Google segir að breytingunum sé ætlað að bæta frammistöðu, öryggi og persónuvernd í viðbótum í vafranum. Viðbætur geti stundum hægt á vefsíðum þegar þær lesa upplýsingar. Ætlun Google er að banna viðbótum að breyta gögnum sem þær fá frá vefsíðum sem netnotendur heimsækja.

Forsvarsmenn Google segjast ætla að ráðfæra sig við hugbúnaðarfyrirtæki sem bjóða upp á auglýsingavara og fleiri viðbætur til að takmarka áhrif breytinganna. Markmið sé ekki að eyðileggja viðbæturnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×