Menning

Sjálfur skil ég ekki list mína

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Ég er algjör fagurkeri, segir Ragnar Kjartansson sem sést hér fyrir framan verk sitt Fígúrur í landslagi.
Ég er algjör fagurkeri, segir Ragnar Kjartansson sem sést hér fyrir framan verk sitt Fígúrur í landslagi. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Fígúrur í landslagi er verk eftir Ragnar Kjartansson sem sýnt er í i8. Listamaðurinn gerði verkið upphaflega fyrir Heilbrigðisvísindasvið Kaupmannahafnarháskóla og var verkið vígt þar 29. janúar og sýningin í i8 var opnuð 31. janúar.

„Þetta er eitt verk og sjö verk, svona eins og Harry Potter bækurnar. Á sýningunni eru sjö vídeó án hljóðs, hvert um sig sólarhrings langt, af fólki í læknasloppum sem gengur fram og til baka í epísku landslagi,“ segir Ragnar. „Hugmyndin var að gera verk sem væri eins konar tilvitnun í veggmyndir, eins og myndir Diego Rivera í Bandaríkjunum og í sósíalískar áróðurslágmyndir í Sovétríkjunum. Þetta er leikur að málverkinu og kvikmyndinni og hugmyndinni um fólk í vísindasloppum sem tákn framfara og hreinleika. Þetta fólk er í epísku landslagi en það er ekki að gera neitt annað en að ganga fram og til baka. Þetta er því fremur melankólískt.“

Landslagið í vídeóinu er málað af Ragnari og hópi leiktjaldamálara sem hann vinnur mikið með, en þeir eru frá Lettlandi, Þýskalandi og Austurríki. Leikararnir í vídeóinu eru af fjölmörgum þjóðernum og langflestir búsettir hér á landi. Alls koma um 60 manns fyrir í verkinu. Upptökur tóku um tvær vikur og fóru fram í kvikmyndaverinu í Gufunesi. „Verkið lítur út fyrir að vera einfalt en tæknilega var það skrímsli,“ segir Ragnar.

Þar sem vídeóið er af fólki í náttúrunni er listamaðurinn spurður um hugmyndir sínar um manninn í náttúrunni. „Ég hef rómantískar hugmyndir um manninn í náttúrunni. Svolítið fastur í einhverri 19. aldar hugmynd. Þegar ég sé stórkostlega íslenska náttúru tengi ég hana við sagnir og menningu, frekar en að náttúran standi fyrir sjálfri sér,“ segir Ragnar.

Hefurðu áhyggjur af því að maðurinn sé að eyða náttúrunni?

„Að sjálfsögðu.“

List frá djöflinum

Er pólitískur boðskapur í list þinni?

„Sem borgari er ég mjög pólitískur maður en ég passa mig á því að listin mín sé hál sem áll. Mér finnst mikilvægt að listin komi frá djöflinum, að fólk viti ekki alveg hvað hún tákni. Ég lifi mjög eftir því sem Oscar Wilde skrifaði í myrkviðum fangelsisins í Reading, að í listinni skipti góður ásetningur ekki nokkru máli. Hann sagði þetta ekki af hnyttni inni í hlýrri stofu heldur í fangaklefa þar sem hann var í tvö ár.“

Þú ert örugglega oft beðinn um að túlka list þína. Leiðist þér það?

„Nei, mér leiðist það ekki. En sjálfur skil ég ekki list mína, sem er mikilvægt því ef ég skildi verk mín til hlítar þá þætti mér þau ekki spennandi. Eins og Bjarni vinur minn segir: Ef konseptið er gott er þá ekki alveg óþarfi að framkvæma það?“

Í list þinni ertu mikið fyrir sviðsetningar, eru það áhrif frá leikhúsi?

„Ég hef mjög mikinn áhuga á sviðsetningum. Ég er alinn upp í leikhúsi, lifi mikið í leikhúsi og hef unnið fyrir leikhús, en samt aldrei á forsendum leikhússins sjálfs. Ég er alltaf að átta mig betur á því að ég er enginn leikhúsmaður. Ég er myndlistarmaður út í gegn. Ég held að ég hafi sem barn óvart misskilið leikhúsið, skilið það frá upphafi út frá myndlistarlegum forsendum. Leikhúsfólk talar mikið um að það sé að spegla samfélagið. Ég hef engan áhuga á að spegla samfélagið, ég er bara eitthvað að djóka.“

Ertu fagurkeri?

„Já, já. Ég er algjör fagurkeri. Allir listamenn fást við fegurðina. Ég get ekki nefnt einn einasta sem gerir það ekki.“

Fígúrur í landslagi. Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine og i8.

Endurtekningin er griðastaður

Það er óhætt að segja að Ragnari hafi vegnað vel í list sinni en verk hans hafa verið sýnd á virtustu söfnum og myndlistarhátíðum heims. Hann er spurður hverju hann þakki þessa velgengni. „Örugglega öllu því gagnrýna fólki sem er í kringum mig,“ segir hann og bætir við: „Skýringin á velgengninni er sennilega sambland af leikgleði, vanmætti og sjálfshatri.“

Hefurðu mikla ástríðu fyrir því sem þú ert að gera?

„Ég veit það ekki vegna þess að vinna er svo samofin sjálfsmynd minni. Ég geri bara það sem ég geri en þótt ég sé að gera eitthvað gríðarlega skemmtilegt þá hlakka ég alltaf til kaffipásunnar. Ég er ekki týpan sem sleppir henni.“

Starfs síns vegna er hann mikið á ferðalögum, en býr í miðbæ Reykjavíkur. „Ég er nánast eins og flugþjónn, á stöðugum ferðalögum og vinn mikið erlendis. Reykjavík er vel staðsett, mitt á milli Moskvu og Washington, eins og segir í laginu. Ég hef alltaf unnið út frá íslensku listasenunni. Hvert sem maður kemur þá er allt voða mikið eins, það er hvergi mjög gaman og hvergi mjög leiðinlegt.“

Eru einhver viðfangsefni sem eru þér hugleiknari en önnur?

„Ég veð mikið úr einu í annað. Það má örugglega sjá rauðan þráð í gegnum verk mín en ég held samt að allir listamenn séu að gera sama verkið aftur og aftur. Það á örugglega við um mig eins og aðra. Nýjasta verkið er alltaf einhvers konar snerting við verkið sem var á undan.

Ég vinn mjög mikið með endurtekningu og tíma en það er miklu meira í forminu heldur en að um sé að ræða heimspekilegar pælingar um endurtekninguna. Mér finnst endurtekningin svo ofur sjálfsagt fyrirbæri í lífi okkar.“

Finnst þér hún hvorki þreytandi né leiðinleg?

„Jú, algjörlega. En þegar ég bý til verk þar sem ég er að endurtaka eitthvað þá er ég um leið að skapa öryggi. Endurtekningin er einhvers konar griðastaður. Við lifum öll í endurtekningunni.“

Næst á dagskrá hjá Ragnari er nýtt vídeóverk sem verður frumsýnt erlendis í vor, hvar segist hann ekki mega segja að þessu sinni. Yfirlitssýning á verkum hans verður síðan í Stuttgart í júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×