Fótbolti

Kyle Walker sá eini sem hefur haldið hreinu gegn Atalanta í Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyle Walker sýndi góða takta í marki Manchester City gegn Atalanta í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Kyle Walker sýndi góða takta í marki Manchester City gegn Atalanta í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. vísir/getty

Kyle Walker, hægri bakvörður Manchester City, er eini markvörðurinn sem hefur ekki fengið á sig mark gegn Atalanta í Meistaradeild Evrópu í vetur.

Atalanta tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn með 3-4 sigri á Valencia á Mestalla í gær. Ítalska liðið vann einvígið 8-4 samanlagt. Josip Ilicic skoraði öll fjögur mörk Atalanta í leiknum í gær og alls fimm af átta mörkum liðsins í einvíginu gegn Valencia.

Atalanta hefur samtals skorað 16 mörk í átta leikjum í Meistaradeildinni í vetur. Ítalska liðið hefur skorað framhjá öllum markvörðum sem það hefur mætt í Meistaradeildinni nema Walker sem er ekki þekktur fyrir hæfileika sína sem markvörður.

Walker lék síðustu mínúturnar í marki City í 1-1 jafntefli við Atalanta í fjórðu umferð riðlakeppninnar. Þegar níu mínútur voru eftir af leiknum fékk Claudio Bravo rauða spjaldið fyrir brot á Ilicic.

Bravo hafði komið inn á sem varamaður fyrir Ederson þegar sá síðarnefndi fór meiddur af velli í hálfleik.

City þurfti því markvörð og Walker var settur í verkið. Hann klæddi sig í markvarðabúning og markmannshanska og stóð á milli stanganna síðustu mínútur leiksins. Walker stóð sig vel í marki City og hélt hreinu.

Walker tókst því það sem Ederson, Bravo, Andriy Pyatov, Dominik Livakovic, Jaume Doménech og Jasper Cillesen mistókst; að halda hreinu gegn Atalanta í Meistaradeildinni í vetur.

Mörkin úr 3-4 sigri Atalanta á Valencia í gær má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×