Þetta er í áttunda sinn sem Barcelona kemst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en liðið hefur fjórum sinnum orðið Evrópumeistari, síðast árið 2011.
Þýsku meistararnir byrjuðu leikinn vel og Mehdi Benatia kom þeim yfir á 7. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Xabi Alonso. Þetta var fyrsta markið sem Barcelona fær á sig síðan í fyrri leiknum gegn Paris Saint-Germain 15. apríl.
Forystan entist aðeins í átta mínútur. Á 15. mínútu sendi Lionel Messi Luis Suárez í gegnum vörn heimamanna. Suárez var óeigingjarn og lagði boltann til hliðar á Neymar sem skoraði af stuttu færi.
Brasilíumaðurinn var ekki hættur og á 29. mínútu kom hann Börsungum yfir eftir skyndisókn. Messi skallaði boltann inn fyrir galopna vörn Bayern á Suárez sem sendi svo þvert fyrir markið á Neymar sem lagði boltann fyrir sig með bringunni og skoraði svo með góðu skoti á nærstöngina. Þetta var sjöundi leikurinn í röð sem Neymar skorar í.

Eftir mörk Neymars var staða Bayern orðin nánast ómöguleg enda þurfti liðið að skora fimm mörk til að komast áfram.
Bæjarar fengu fín tækifæri til að skora en Marc-André ter Stegen átti mjög góðan leik í marki Barcelona.
Staðan var 1-2 í hálfleik en Robert Lewandowski jafnaði metin á 59. mínútu eftir sendingu frá Bastian Schweinsteiger.
Bæjarar héldu áfram og á 74. mínútu kom Thomas Müller þeim yfir eftir sendingu frá Schweinsteiger. Þetta var sjöunda mark Müllers í Meistaradeildinni í vetur og 28. í heildina.
Fleiri urðu mörkin ekki og Bayern fagnaði sigri sem dugði þeim skammt. Þetta er annað árið í röð sem lærisveinar Pep Guardiola falla úr leik í undanúrslitunum.
Það kemur svo í ljós á morgun hvort það verður Real Madrid eða Juventus sem mætir Barcelona í úrslitaleiknum á Ólympíuleikvanginum í Berlín 6. júní næstkomandi.