Manchester United mætir Danmerkurmeisturum Midtjylland í seinni leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.
United þarf á sigri að halda eftir afar óvænt 2-1 tap í fyrri leiknum í Herning, en útivallarmarkið sem Memphis Depay skoraði gæti komið að góðum notuð í kvöld.
Sigur í Evrópudeildinni gæti verið eina leið Manchester United inn í Meistaradeildina á næstu leiktíð þar sem liðið er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sex stigum á eftir Manchester City og hefur aðeins unnið einn af síðustu fjórum deildarleikjum sínum.
United verður án David De Gea í leiknum í kvöld. Spænski markvörðurinn meiddist í upphitun fyrir fyrri leikinn í Danmörku og missti einnig af 3-0 bikarsigri liðsins gegn Shrewsbury á mánudagskvöldið.
Chris Smalling, miðvörður United-liðsins, er tæpur fyrir leikinn en hann æfði ekki í gær. Það er óvíst hvort hann geti tekið þátt í kvöld.
Phil Jones, Cameron Borthwick-Jackson, Ashley Young, Marouane Fellaini og Bastian Schweinsteiger eru allir frá vegna meiðsla en Marcos Rojo verður í leikmannahópnum.

