Gylfi Þór Sigurðsson var maðurinn á bak við mikilvægan 2-1 heimasigur Swansea á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Gylfi var þarna að tryggja Swansea-liðinu þrjú stig annan leikinn í röð en í síðustu umferð skoraði hann sigurmark liðsins á Anfield. Þetta eru ótrúlega mikilvæg stig fyrir Swansea í baráttunni fyrir sæti sínu í deildinni.
Gylfi skoraði sigurmarkið tuttugu mínútum fyrir leikslok en hann lagði einnig upp fyrra mark liðsins. Gylfi hefur þar með komið að fjórtán mörkum Swansea á leiktíðinni, skoraði sjö sjálfur og gefið sjö stoðsendingar að auki.
Alfie Mawson kom Swansea í 1-0 á 38. mínútu með skallamarki á fjærstönginni eftir hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni.
Gylfi hafði áður lagt upp mjög gott færi fyrir Fernando Llorente og Gylfi átti síðan gott skot undir lok hálfleiksins sem Forster varði í marki Southampton.
Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki vel fyrir Swansea og Shane Long jafnaði metin á 58. mínútu eftir fallega sókn og sendingu Ryan Bertrand.
Gylfi kom Swansea í 2-1 á 70. mínútu eftir skyndisókn og sendingu frá Luciano Narsingh. Það var nóg eftir en Swansea varði forystuna og landaði mikilvægum sigri.
