KR mætir gömlu lærisveinum Ole Gunnar Solskjær í norska liðinu Molde í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Breiðablik mætir Vaduz og Stjarnan spilar við Levadia Tallin frá Eistlandi.
KR byrjar fyrri leikinn úti í Noregi en Blikar byrja heima gegn Vaduz frá Liechtenstein og Stjörnumenn fá Levadia Tallin á Samsungvöllinn í fyrri leiknum.
Molde hefur verið inn og út úr Evrópukeppnum síðustu ár. Liðið fór alla leið í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á síðasta ári en tapaði þar fyrir Zenit. Besti árangur liðsins er 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar tímabilið 2015-16 þar sem Sevilla sló Norðmennina úr leik.
Vaduz varð í sjötta sæti deildarinnar í Liechtenstein á síðasta tímabili en komst í Evrópudeildina sem bikarmeistari. Vaduz hefur orðið bikarmeistari sjö ár í röð. Frá árinu 1995 hefur liðið aðeins tvisvar ekki orðið bikarmeistari, 2012 og 1997.
Liðið hefur því verið fastagestur í Evrópudeildinni síðustu ár og nær alltaf farið áfram úr fyrstu umferðinni.
Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Blika, mun mæta sínu gamla liði en hann fór á láni til Vaduz árið 2009.
Levadia Tallinn lenti í öðru sæti í eistnesku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og er sem stendur í öðru sæti.
Fyrri leikirnir fara fram fimmtudaginn 11. júlí og þeir seinni viku síðar, 18. júlí.
Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Levski Sofia mæta Ruzomberok frá Slóvakíu, Hjörtur Hermannsson og Bröndby mæta finnska liðinu Inter Turku. Malmö með Arnór Ingva Traustason innanborðs mætir annað hvort Ballymena United frá Norður-Írlandi eða NSÍ frá Færeyjum.
Steven Gerrard og lærisveinar hans í Rangers mætta annað hvort FC Prishtina eða St. Joseph's FC.

