Viðskipti innlent

Samherji selur í hraðfrystistöð

"Markmiðið með kaupunum er að tryggja framgang fyrirtækisins og áframhaldandi rekstur," segir Björn Ingimarsson, formaður stjórnar Fræs ehf. og sveitarstjóri Þórshafnar á Langanesi, en félagið hefur keypt ráðandi hlut í Hraðfrystistöð Þórshafnar af Samherja. Fræ er í eigu bæjarfélagsins en Björn segir ekki stefnumál bæjarfélagsins að standa í atvinnurekstri. "Það er ekki stefnan að eiga áfram ráðandi hlut í Hraðfrystistöðinni og sjá um rekstur fyrirtækisins," segir Björn og bætir því við að viðræður verði við fjárfesta sem vænlegir séu fyrir þennan rekstur. "Hagsmunir okkar og hugsanlegra fjárfesta verða að fara saman og ég sé ekkert því til fyrirstöðu." Hraðfrystistöðin er að mati Björns mikilvæg fyrir bæjarfélagið. "Þetta er stærsti vinnuveitandinn og margföldunaráhrif fyrirtækisins á atvinnulíf bæjarins eru mikil. Við viljum hafa hönd í bagga með að tryggja framgang fyrirtækisins og þess vegna tókum við þá ákvörðun að kaupa ráðandi hlut í því." Hlutur Fræs ehf. er upp á 34,2% en nafnvirði hans er um 168 milljónir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×