Viðskipti innlent

Lækkun tekjuskatts án verðbólgu

Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir að ríkisstjórnin geti lækkað tekjuskatt eins og stjórnarsáttmálinn kveður á um, án þess að hleypa af stað verðbólgu, með því að beita niðurskurðarhnífnum. Hann telur þó óþarft að einblína á velferðarkerfið í því sambandi. Tryggvi Þór segir varasamt að lækka tekjuskatt vegna verðbólgunnar nema húsnæðisverð og verð á olíu, sem hafi drifið verðbólguna áfram, lækki til muna á næstunni. Þá sé framundan mikil þensla vegna stóriðjuframkvæmda. En ef ríkisstjórnin beiti niðurskurðarhnífnum á móti séu skattalækkanir þó vel framkvæmanlegar. „Ef skattar yrðu lækkaðir núna, án þess að hliðaraðgerðir væru framkvæmdar um leið, gæti það orðið mjög erfitt fyrir þensluna,“ segir Tryggvi. Aðspurður hvar hann sæi fyrir sér að hægt væri að skera niður í ríkisútgjöldum, til þess að skattalækkanirnar yrðu mögulegar, segist Tryggvi ekki vera stjórnmálamaður og því líklega ekki rétti maðurinn til að spyrja. Sem leikmaður á stjórnmálasviðinu segist hann hins vegar sjá fyrir sér útgjaldaliði eins og stuðning við atvinnuvegina og utanríkisþjónustu. Einnig sé hægt að taka til á stöðum eins og í ráðuneytunum.  





Fleiri fréttir

Sjá meira


×