Viðskipti innlent

Ríkið gæti að stöðugleika

Greiningardeild Landsbankans telur "að miðað við núverandi stöðu efnhagsmála sé hættan á að verðbólgan fari úr böndum óveruleg." Þetta kemur fram í sérriti Landsbankans um efnahagsmál. Greiningardeildin áréttar hins vegar hlutverk ríkisins við að halda stöðugleika og segir mikilvægt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skatta- og húsnæðismálum kyndi ekki undir verðbólgu. "Við erum að mæla gegn því að ríkið stundi eftirspurnarhvetjandi stefnu við núverandi aðstæður. Skattalækkanir flokkast undir það ef þær skapa aukna eftirspurn. Við höfum ekkert á móti skattalækkunum almennt svo fremi sem þær hafi ekki neikvæð áhrif á verðstöðugleika," segir Björn Rúnar Guðmundsson hagfræðingur hjá Landsbankanum. "Við mælum mjög sterklega gegn eftirspurnarhvetjandi aðgerðum á þessum tíma í hagsveiflunni. Það ógnar verðstöðugleikanum með að skapa of mikinn þrýsting. Stjórnvöld hafa þetta í hendi sér," segir hann. Landsbankinn telur að meiri slaki sé í efnahagslífinu heldur en virðist við fyrstu sýn þar sem staðan á vinnumarkaði sé gjörbreytt frá því sem var síðast þegar íslenska hagkerfið ofþandist með tilheyrandi hækkun á verðbólgu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×