
Viðskipti erlent
Volvo innkallar 460.000 bíla

Volvo-verksmiðjurnar hafa innkallað 460 þúsund bifreiðar um heim allan vegna galla í rafkerfi í nokkrum tegundum Volvo-bifreiða. Tegundirnar sem eru gallaðar eru S60, S80 og XC70 frá árinu 2000 og 2001. Samskonar gallar hafa einnig fundist í nokkrum bílum af 1999 árgerðinni. Blaðafulltrúi Volvo, Christer Gustafsson, leggur áherslu á það í viðtali við Stöð 2 í Noregi að engin slys megi rekja til þessa galla. Hann getur leitt til ofhitunar og í versta falli til þess að eldur kviknar í bílnum. Helst er hætta á að þetta gerist þar sem heitt er í veðri eða þar sem langar biðraðir bíla myndast.