Menning

Mör og blóð í bala

Nú stendur sláturtíð sem hæst, þótt það sé reyndar löngu af sem áður var að heilu fjölskyldurnar sameinuðust í þvottahúsinu við saumaskap á vömbum, blóðhræru í bölum og mör út um allt. Það er þó enn til fólk sem tekur slátur á hverju ári, enda slátur með afbrigðum hollur og góður matur og afskaplega ódýr. Regína Þorvaldsdóttir er ein þeirra sem alltaf taka slátur og hefur gert í 28 ár. "Ég byrjaði á þessu átján ára," segir Regína og finnst tilhugsunin eiginlega alveg ótrúleg. "Þá var ég komin með tvö börn og mann í námi þannig að þetta snerist um að eiga ódýran mat fyrir veturinn. Ég tók yfirleitt tíu slátur og svo var boðið upp á grjónagraut eða hafragraut með slátri í öll mál." Regína er alin upp við sláturgerð, en fyrst eftir að hún byrjaði að búa tók hún slátur ein og naut leiðsagnar móður sinnar gegnum símann. "Þetta hefur svo þróast í gegnum árin, stundum var mamma með mér eða móðursystir mín og nú gerum við systurnar þetta saman." Sláturgerðin hefur breyst í áranna rás og nú eru vambirnar seldar hreinsaðar og mörinn skorinn. "Það er óskaplegur munur," segir Regína. "Ég verka vambirnar alltaf aðeins meira og kaupi að sjálfsögðu mörinn skorinn. Aðalvinnan var alltaf í mörnum. Ég tek slátrið í eldhúsinu og það er langt í frá að allt fari á annan endann. Hrályktin hverfur svo alveg þegar slátrið er soðið og matarilminn leggur yfir." Regína segist hætt að kaupa slátur í kössum þar sem hún nýtir ekki innmatinn og kaupir yfirleitt 12-13 vambir, 12-13 lifrar, mör og einn lítra af blóði. Hún reyndi einu sinni að minnka verulega mörinn í slátrinu en fannst það alveg misheppnað. "Ég varð að henda því öllu, mörinn er alveg nauðsynlegur með. Þeir sem vilja ekki mörinn verða bara að tína hann úr." Slátur er enn vinsælt á heimili Regínu. Hún er með fjögur börn heima og tvö eru flogin úr hreiðrinu, en þau elstu kunna best að meta slátrið. "Hinum finnst það ágætt, nema þeirri yngstu, hún persónulega borðar ekki svona ógeð," segir Regína og skellihlær. Regína gefur okkur uppskrift að lifrarpylsu og blóðmör. Lifrarpylsa 10 lifrar, best ef þær eru 400-500 g stk. 800-1000 g haframjöl 10 bollar mjólk og 10 bollar vatn 10 msk. salt Um 6-8 súputeningar leystir upp í volgu vatni rúgmjöl eftir smekk hvers og eins 3 kg mör eða eftir smekk hvers og eins. Aðferð: Lifrarnar hreinsaðar af sinum og himnu og hakkaðar (best hefur mér reynst að tvíhakka lifrarnar þar sem pylsan verður ekki eins gróf). Þá er mjólk, vatni, uppleystum súputeningum og salti blandað saman við lifrarhakkið og hrært vel saman við. Þá er haframjölið sett út í hræruna og síðan rúgmölið. Regína hefur aldrei verið með ákveðið magn af rúgmjölinu en hefur það fyrir sið að rita kross í hræruna og ef hann rennur ekki létt saman þá er hræran tilbúin. Síðan er mörnum bætt út í eftir smekk hvers og eins. Sett í keppina rúmlega til hálfs. Blóðmör 1 lítri af blóði 4 dl vatn ½-1 msk. salt 400 g rúgmjöl 600 g haframjöl 1-1½ kg mör. Aðferð: Blóðið er sigtað í gegnum fínt sigti eða gróft léreft. Síðan er vatninu hellt í gegnum sigtið og saltinu blandað saman við blóðið og hrært þangað til það hefur leyst upp. Helmingur af mörnum settur út í, mjölið hrært saman við og hrært í þar til það er jafnt. Best er að gera það með hendinni. Síðan er mörnum bætt út í eftir smekk hvers og eins. Gott er að láta rúsínur út í blóðmör. Sett í keppina til hálfs og saumað fyrir.
Saumaskapur er stór hluti af sláturgerðinni ef fólk notar ekki gervivambir. Regína ásamt Margréti dóttur sinni og Bríeti vinkonu hennar. FleiriMynd/Vilhelm
Regína tekur slátur á hverju ári. Hér er hún að snyrta vambir. FleiriMynd/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×