Lífið

Lýsing í skammdeginu

Ef einhvern tíma er lampatími þá er það nú í skammdeginu. Lampar eru víða til í miklu úrvali en fyrir þá sem vilja eiga lampa sem eru öðruvísi eru lamparnir hennar Steinunnar Óskar Óskarsdóttur skemmtilegur kostur. "Þetta eru lampar sem ég bý til úr jarðvegsdúk," segir Steinunn. "Ég lærði undirstöðuna hjá móðursystur minni Bertu Maríu Waagfjörð, sem er algjör snillingur, en ég nota önnur efni. Ég teikna lampana sjálf og mála og sauma í þá en engir tveir lampar eru eins og hægt er að fá vegglampa og borðlampa. Ég nota líka baunir af ýmsum tegundum sem skraut, sem og vikur." Steinunn gerir fleira en lampa, hún býr líka til skilrúm og fallegar myndir í glugga. "Ég hef aldrei notað gardínur," segir hún hlæjandi, "hef alltaf verið með eitthvað öðruvísi í mínum gluggum. Fólk getur pantað hjá mér listaverk í gluggann og ákveðið liti og mynstur sjálft. Svo er ég með kertastjaka og sumir lamparnir eru þannig hannaðir að hægt er að hafa í þeim bæði kerti og rafmagn." Lampar Steinunnar eru til sölu hjá Blómaversluninni Blóm er list sem er á fimm stöðum á Reykjavíkursvæðinu.
Skilrúm og myndir geta verið miklu fallegri en gardínur í gluggum.Mynd/E.Ól
Lamparnir eru í ýmsum mynstrum og hægt að fá þá hvort heldur sem er sem vegglampa eða borðlampa.Mynd/E.Ól





Fleiri fréttir

Sjá meira


×