Viðskipti innlent

Matvöruverð lækkar við kaupin

Matvöruverð lækkar á Íslandi með kaupum Baugs og annarra fjárfesta á bresku verslanakeðjunni Big Food Group, segir forstjóri Baugs. Ef hluthafar keðjunnar samþykkja formlegt yfirtökutilboð, eignast Íslendingar eitt stærsta einkahlutafélag í Bretlandi. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, og fulltrúar annarra fjárfesta náðu samkomulagi um fjármögnun yfirtökutilboðs í Big Food Group í gærkvöldi. Kaupverð nemur 670 milljónum punda, eða rúmlega áttatíu milljörðum króna. Heildarfjármögnun nemur rúmlega 900 milljónum punda, eða rúmlega 112 milljörðum króna, en semja þurfti einnig um rekstrarfjármögnun sem hljóðaði upp á 30 milljarða. KB-banki, Landsbankinn og Bank of Scotland standa að fjármögnuninni. Formlegt tilboð þeirra verður lagt fyrir hluthafafund ytra í lok janúar og ef minnst 75 prósent þeirra samþykkja það ganga kaupin í gegn. Þar með eignast Íslendingar eitt stærsta einkahlutafélag á Bretlandseyjum, sem verður með yfir 600 milljarða króna ársveltu, og verslunum Baugs í Bretlandi fjölgar í 2300. Fjöldi starfsmanna verður um 50 þúsund. Stefnt er að því að að Baugur og aðrir meðfjárfestar taki við breska félaginu 11. febrúar á næsta ári. Með kaupunum eignast meðal annars Baugur 43% í Big Food Group, Burðarás 11,6%, félög í eigu Pálma Haraldssonar 8,9%, og hlutur Kaupþings í bresku verslanakeðjunni verður 5,4%. Jón Ásgeir segir þetta stórt skref í útrásinni og það langstærsta sem Baugur hafi tekið. Hann segir þetta sýna að fyrirtækinu sé treyst til að takast á við svo stórt verkefni. Stefnt er að því að skipta Big Food Group upp í þrjár einingar: matvörukeðjurnar Booker og Iceland og fasteignafélag í eigu hluthafa. Markmiðið með því er að ná fram hagræðingu og sparnaði. Spurður hvaða áhrif þessi kaup Baugs ytra muni hafa á starfsemi félagsins hér á landi segir Jón Ásgeir að strax á næsta ári munu innkaupsverð Haga, dótturfyrirtækis Baugs sem m.a. rekur Bónusverslanirnar, batna sem eigi að geta skilað sér í lægra vöruverði. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×