Hvað er úti í garði?

Þegar sól hækkar á lofti, snjóa leysir og fannhvít mjöllin sleppir tökunum á frosinni grund kemur oft ýmislegt í ljós í garðinum. Leifarnar af gamlárskvöldi skreyta gjarna grasflötina, pappírshólkar sem einu sinni innihéldu stjörnur og sólir, kampavínsflöskur sem voru notaðar sem skotpallar það sama kvöld, trefillinn sem Gunna frænka týndi á leiðinni heim. Sumstaðar má sjá allt sem var rifið út úr baðherberginu þegar það var gert upp í nóvember, ruslapoka sem var alltof kalt að fara með alla leið í tunnuna, hjólið sem gleymdist að taka inn og þannig mætti lengi telja. Það sem snjór og myrkur huldu er nú orðið sýnilegt og því nauðsynlegt að taka til í garðinum og fara nokkrar ferðir í Sorpu. Þó ber að passa sig vel á því að taka bara aðskotahluti og rusl. Gróðurleifar og mold nýtist garðinum prýðilega til jarðvegsgerðar og alveg ástæðulaust að svipta hann því sem gæti nýst til uppbyggingar eftir erfiðan vetur.