Menning

Fjallgöngur aldrei verið vinsælli

"Fjallgöngur eru greinilega í tísku en þegar maður var að byrja að ganga á fjöll um 1980 þá var maður álitinn skrítinn," rifjar Guðmundur J. Hallvarðsson tónlistarmaður upp. Hann segir gönguferðir reyndar hafa átt vaxandi fylgi að fagna í dálítinn tíma og margt blandist inn í það, til dæmis heilsuefling og annað slíkt. Uppselt er í margar gönguferðir sumarsins og um hundrað manns ætla að ganga á Hvannadalshnjúk nú um hvítasunnuna. "Það er einhver rómantík í því að komast á hæsta tind landsins. Þar vilja allir standa," segir Guðmundur þegar hann er spurður álits á þessum mikla áhuga. Hann dregur reyndar í efa að allir séu nógu vel undirbúnir undir jökulgönguna enda sé hún frekar erfið. En telur hann að fólk upplifi gönguferðir um landið á annan hátt en áður og þar sé einhver rómantík í spilinu?

"Ég held það sé dálítið misjafnt. Sumir fara í göngur til að kynnast landinu, virða fyrir sér útsýnið og spá kannski í jarðfræðina og söguna. Nokkurskonar landkönnuðarferðir. Svo fer fólk á fjöll sem leggur allt kapp á að komast nógu hratt. Þannig að segja má að sportið sé komið inn í þetta. Vegalengd sem venjulega er farin á þremur til fjórum dögum er þá farin kannski á fimm tímum. Umhverfis- og náttúruvernd spilar líka inn í þennan aukna áhuga. Þannig að það er engin ein lína í þessu."

Guðmundur hefur verið fararstjóri hópa á vegum Ferðafélags Íslands um Hornstrandarsvæðið frá 1990. Hann segir allar Hornstrandaferðir hjá Ferðafélaginu í sumar hafa selst upp og tvær aukaferðir verið settar á dagskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×