Vinstri-slys og varnarleysi?! 2. júní 2005 00:01 Morgunblaðið hefur að undanförnu kynnt landslýð athyglisverða stjórnmálagreiningu. Það gerðist t.d. í nýlegum Staksteinum og svo í ítarlegri útfærslu í Reykjavíkurbréfi um síðustu helgi. Svo virðist sem þetta séu eins konar viðbrögð við niðurstöðu úr formannskjöri Samfylkingarinnar. Ritstjórar Morgunblaðsins hafa á umliðnum misserum sjálfir gert sér far um að tengja ritstjórnarskrif sín og pólitíska stefnu blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn og forustu hans - samanber ákvörðun þeirra um að setja áramótagrein Davíðs Oddssonar á viðhafnarstað. Því er ekki óeðlilegt að álykta að í greiningu Morgunblaðsins megi finna vísi að þeirri herstjórnarlist, sem Sjálfstæðisflokkurinn hyggst beita í stjórnmálunum fram til næstu kosninga. Það kemur þó á óvart að þeir leikir sem nú eru valdir í hinni pólitísku refskák eru síður en svo nýir af nálinni. Þvert á móti eru þetta gamlir uppvakningar: meint ógn af vinstristjórnum annars vegar og hermálið hins vegar. Hefðbundið er að skilgreina sem vinstri-stjórn, þá stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í. Morgunblaðið hefur nú skilgreint nýja "ógn", sem augljóslega er sýnu verri en sú fyrri, en það er "hreinræktuð vinstri-stjórn". Það er stjórn sem hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur taka þátt í. Það er m.ö.o. samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Samkvæmt greiningu Reykjavíkurbréfs er talsverður munur á því hvort um "hreinræktaða" vinstri-stjórn er að ræða eða bara hefðbundna vinstri-stjórn. Það er vegna þess að í Framsóknarflokknum voru til skamms tíma tveir armar, hægri armur og vinstri armur. Hægri armurinn, að sögn blaðsins, tengdist viðskiptalífinu og SÍS og gaf þessum vinstri-stjórnum það litla jarðsamband sem þær höfðu. Mogga þykir þó ekki mikið hafa komið til þessara stjórna, enda hafi þær verið "misheppnaðar ríkisstjórnir sem skildu eftir sig mikil vandamál, sem aðrir urðu að hreinsa upp," svo notað sé orðalag Reykjavíkurbréfs. Það er þó merkileg tilviljun að Morgunblaðið skuli gleyma síðustu "vinstri-stjórninni", ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá 1989-1991, sem sigraðist á verðbólgunni og lagði grunninn að þjóðarsáttinni! Steingrími er þó ekki alveg gleymt og ekki heldur föður hans, Hermanni Jónassyni, því þeir eru einmitt sagðir hafa verið helstu leiðtogar hins draumórakennda vinstri arms, arms sem blaðið segir raunar vera horfinn úr flokknum núna. "Eftir stendur hægri armurinn og fólk sem er óánægt, ekki vegna óánægju með stefnu flokksins heldur eigin stöðu og skort á frama," segja flokkshollir ritstjórar um samstarfsflokkinn. Og ekki nóg með að blaðið telji flokkinn orðinn einfættan framagosaflokk heldur er formaðurinn Halldór Ásgrímsson á síðasta söludegi: "...miðað við þann tíma, sem hann hefur verið virkur í stjórnmálum má gera ráð fyrir að nú sé komið fram á seinni hluta valdatímabils hans í flokknum". En hættan við hina hreinu vinstristjórn er þó ekki einvörðungu falin í því að þar fari "misheppnuð stjórn sem muni skilja eftir sig mikil vandamál". Hættan felst ekki síst í utanríkisstefnu slíkrar stjórnar, enda telur Morgunblaðið einsýnt að stjórnarherrar af þessu sauðahúsi muni rjúka til og reka herinn úr landi. Blaðið les landsfundarsamþykktir Samfylkingarinnar þannig að flokkurinn sé tilbúinn til að reka herinn úr landi og allir vita hvert hugur Vg stefnir í þessum málum. Þannig muni þessir tveir flokkar geta sameinast um að skilja landið eftir varnarlaust, sem sé fjarri því að vera uppörvandi hugsun fyrir gamla Alþýðuflokksmenn innan Samfylkingarinnar. Og það er einmitt í þessu samhengi sem það skýrist hvers vegna Morgunblaðið telur ástæðu til að gera lítið úr Framsóknarflokknum og benda auk þess á að vinstrifótinn vanti. Án vinstri armsins er ekki líklegt að Framsóknarmenn taki þátt í vinstra samstarfi, og því ekki heldur um viðspyrnu eða jarðsamband að ræða frá hægri armi flokksins. Morgunblaðið er m.ö.o. að segja okkur að hættan á vinstri-slysum og varnarleysi sé raunveruleg og eina svarið að styðja duglega við bakið á Sjálfstæðisflokknum. Herstjórnarlistin sem við getum því átt von á frá Sjálfstæðisflokknum á næstu misserum ef þessi stefna gengur fram mun því hljóma kunnuglega í eyrum margra. Slagorð um vinstri- hættur og varnarleysi munu þá taka að hljóma á ný. Nýrri pólitískri stöðu verður mætt á stöðnuðum sagnfræðilegum forsendum. Finnist fólki það hafa heyrt orðræðu Morgunblaðsins áður þá er ekki bara á ferðinni hin merkilega endurtekningarupplifun sem kölluð er "deja vu". Fólk hefur í raun og veru heyrt þetta áður! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Fastir pennar Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun
Morgunblaðið hefur að undanförnu kynnt landslýð athyglisverða stjórnmálagreiningu. Það gerðist t.d. í nýlegum Staksteinum og svo í ítarlegri útfærslu í Reykjavíkurbréfi um síðustu helgi. Svo virðist sem þetta séu eins konar viðbrögð við niðurstöðu úr formannskjöri Samfylkingarinnar. Ritstjórar Morgunblaðsins hafa á umliðnum misserum sjálfir gert sér far um að tengja ritstjórnarskrif sín og pólitíska stefnu blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn og forustu hans - samanber ákvörðun þeirra um að setja áramótagrein Davíðs Oddssonar á viðhafnarstað. Því er ekki óeðlilegt að álykta að í greiningu Morgunblaðsins megi finna vísi að þeirri herstjórnarlist, sem Sjálfstæðisflokkurinn hyggst beita í stjórnmálunum fram til næstu kosninga. Það kemur þó á óvart að þeir leikir sem nú eru valdir í hinni pólitísku refskák eru síður en svo nýir af nálinni. Þvert á móti eru þetta gamlir uppvakningar: meint ógn af vinstristjórnum annars vegar og hermálið hins vegar. Hefðbundið er að skilgreina sem vinstri-stjórn, þá stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í. Morgunblaðið hefur nú skilgreint nýja "ógn", sem augljóslega er sýnu verri en sú fyrri, en það er "hreinræktuð vinstri-stjórn". Það er stjórn sem hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur taka þátt í. Það er m.ö.o. samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Samkvæmt greiningu Reykjavíkurbréfs er talsverður munur á því hvort um "hreinræktaða" vinstri-stjórn er að ræða eða bara hefðbundna vinstri-stjórn. Það er vegna þess að í Framsóknarflokknum voru til skamms tíma tveir armar, hægri armur og vinstri armur. Hægri armurinn, að sögn blaðsins, tengdist viðskiptalífinu og SÍS og gaf þessum vinstri-stjórnum það litla jarðsamband sem þær höfðu. Mogga þykir þó ekki mikið hafa komið til þessara stjórna, enda hafi þær verið "misheppnaðar ríkisstjórnir sem skildu eftir sig mikil vandamál, sem aðrir urðu að hreinsa upp," svo notað sé orðalag Reykjavíkurbréfs. Það er þó merkileg tilviljun að Morgunblaðið skuli gleyma síðustu "vinstri-stjórninni", ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá 1989-1991, sem sigraðist á verðbólgunni og lagði grunninn að þjóðarsáttinni! Steingrími er þó ekki alveg gleymt og ekki heldur föður hans, Hermanni Jónassyni, því þeir eru einmitt sagðir hafa verið helstu leiðtogar hins draumórakennda vinstri arms, arms sem blaðið segir raunar vera horfinn úr flokknum núna. "Eftir stendur hægri armurinn og fólk sem er óánægt, ekki vegna óánægju með stefnu flokksins heldur eigin stöðu og skort á frama," segja flokkshollir ritstjórar um samstarfsflokkinn. Og ekki nóg með að blaðið telji flokkinn orðinn einfættan framagosaflokk heldur er formaðurinn Halldór Ásgrímsson á síðasta söludegi: "...miðað við þann tíma, sem hann hefur verið virkur í stjórnmálum má gera ráð fyrir að nú sé komið fram á seinni hluta valdatímabils hans í flokknum". En hættan við hina hreinu vinstristjórn er þó ekki einvörðungu falin í því að þar fari "misheppnuð stjórn sem muni skilja eftir sig mikil vandamál". Hættan felst ekki síst í utanríkisstefnu slíkrar stjórnar, enda telur Morgunblaðið einsýnt að stjórnarherrar af þessu sauðahúsi muni rjúka til og reka herinn úr landi. Blaðið les landsfundarsamþykktir Samfylkingarinnar þannig að flokkurinn sé tilbúinn til að reka herinn úr landi og allir vita hvert hugur Vg stefnir í þessum málum. Þannig muni þessir tveir flokkar geta sameinast um að skilja landið eftir varnarlaust, sem sé fjarri því að vera uppörvandi hugsun fyrir gamla Alþýðuflokksmenn innan Samfylkingarinnar. Og það er einmitt í þessu samhengi sem það skýrist hvers vegna Morgunblaðið telur ástæðu til að gera lítið úr Framsóknarflokknum og benda auk þess á að vinstrifótinn vanti. Án vinstri armsins er ekki líklegt að Framsóknarmenn taki þátt í vinstra samstarfi, og því ekki heldur um viðspyrnu eða jarðsamband að ræða frá hægri armi flokksins. Morgunblaðið er m.ö.o. að segja okkur að hættan á vinstri-slysum og varnarleysi sé raunveruleg og eina svarið að styðja duglega við bakið á Sjálfstæðisflokknum. Herstjórnarlistin sem við getum því átt von á frá Sjálfstæðisflokknum á næstu misserum ef þessi stefna gengur fram mun því hljóma kunnuglega í eyrum margra. Slagorð um vinstri- hættur og varnarleysi munu þá taka að hljóma á ný. Nýrri pólitískri stöðu verður mætt á stöðnuðum sagnfræðilegum forsendum. Finnist fólki það hafa heyrt orðræðu Morgunblaðsins áður þá er ekki bara á ferðinni hin merkilega endurtekningarupplifun sem kölluð er "deja vu". Fólk hefur í raun og veru heyrt þetta áður!
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun