Það er ekki á hverjum degi sem íslensk hljómsveit fær afhentar tvær platínuplötur og tvær gullplötur.
Strákarnir í Sigur Rós munu þó upplifa þetta í Gallerí humar eða frægð í dag því klukkan fjögur fá þeir þessa verðlaunagripi afhenta fyrir þær fjórar stúdíóplötur sem þeir hafa gefið út til þessa.
Nýjasta plata þeirra, „Takk", hefur selst í 9000 eintökum og er því komin í gull líkt og síðasta plata þeirra, „()". Fyrstu tvær plöturnar hafa hins vegar selst í enn fleiri eintökum, þar af 19 þúsund eintök af „Ágætis byrjun", og verða þær því hjúpaðar platínu við verðlaunaafhendinguna á eftir.