Hryðjuverkin halda áfram 13. ágúst 2006 00:01 Það er engum vafa undirorpið að heimsmyndin breyttist töluvert við atburðina í New York og Washington í september 2001. Heimsbyggðin hrökk svo sannarlega við, á því er enginn vafi, en hins vegar verður það vafasamara eftir því sem tíminn líður hvort viðbrögðin við þessum voðaviðburðum síðla sumars fyrir tæpum fimm árum hafi verið rétt. Það er ekki aðeins hér í Evrópu sem þessi hugsun verður æ áleitnari, heldur líka í því landi þar sem atburðirnir áttu sér stað - Bandaríkjunum. Uppljóstranir bresku lögreglunnar í síðustu viku urðu líka til þess að margir hrukku við, ekki aðeins þeir sem voru á leið yfir Atlantsahafið flugleiðis milli Bandaríkjanna og Bretlands, heldur heimsbyggðin öll. Enn sem komið er liggja fremur fáar staðreyndir opinberlega fyrir á borðinu varðandi þetta mál, að því frátöldu að á þriðja tug manna hefur verið handtekinn og fleiri munu vera í sigtinu. Þá hafa yfirvöld skýrt frá því að ætlunin hafi verið að eins konar generalprufa hryðjuverkamannanna hafi átt að vera nú um helgina og upplýst hefur verið á hvern hátt illvirkjarnir hafi ætlað að koma áformum sínum í framkvæmd. Viðbrögðin við þessum áformum létu ekki á sér standa hvað varðar aukna öryggisgæslu í flugi, og þau eru ekki einangruð við þá sem leika aðalhlutverkin í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum, Breta og Bandaríkjamenn, heldur snertir þetta bókstaflega alla sem ferðast flugleiðis í heiminum og reyndar miklu fleiri. Þess vegna er það ekki óeðlilegt að fleiri vilji hafa áhrif á og láta í ljósi skoðanir sínar á hryðjuverkum og viðbrögðum við þeim. Baráttan gegn nasismanum og kommúnismanum tók sinn toll og þar áttust við öflug herveldi. Hryðjuverkamennirnir vega hins vegar úr launsátri og það hefur reynst ákaflega erfitt að uppræta þær hreyfingar sem að baki þeim eru eða ná til höfuðpaura þeirra, þótt mörgum sprengjum hafi verið beint að þeim. Og þrátt fyrir að Saddam Hussein sé nú undir lás og slá halda hryðjuverkin áfram. Það vantar kannski meiri umræðu, meiri samskipti og meiri skilning á báða bóga til þess að einhver árangur verði í hryðjuverkastríðinu. Í það minnsta virðist sem innrásin í Írak hafi langt í frá náð tilgangi sínum, það sýna uppljóstranir bresku lögreglunnar. Þótt við séum fámenn eyja norður í hafi hafa þessir atburðir allir áhrif á daglegt líf okkar. Undan því verður ekki komist. Við þurfum því að hafa varann á og vera við ýmsu búin. Þannig er bara veröldin i dag. Við þurfum ekki bara að vera viðbúin því að hafa hemil á fáum og tiltölulega friðsömum mótmælendum á hálendinu, heldur að vera viðbúin verri uppákomum en það. Vonandi þurfum við þó ekki að hafa lögreglumenn í skotheldum vestum og með spenntar hríðskotabyssur innan um flugfarþega sem eru að leggja upp í langferð, enda er spurning hvaða tilgangi slíkur vopnaburður þjónar. Í kjölfar uppljóstrana bresku lögreglunnar hefur mörgum líka ofboðið að sjá allan viðbúnaðinn á flugvöllunum, ekki aðeins lögregluþjóna með alvæpni, heldur líka hermenn í fullum skrúða koma akandi á brynvörðum bílum og skriðdrekum að flugstöðvunum. Hvernig færi ef einhverjum af þessum vopnum yrði nú beitt, hugsa margir, yrðu það ekki fyrst og fremst saklausir borgarar sem yrðu fórnarlömbin, eins og reyndin hefur orðið í ófriði og styrjöldum í aldanna rás? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kári Jónasson Skoðanir Mest lesið Verðbólga í boði Viðreisnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun 16 ára aldurstakmark á samfélagsmiðlum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Börn, ungmenni og geðheilsa Tómas Þór Þórðarson,Gunnar Örn Jóhannsson Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun Áhyggjulaust ævikvöld Gísli Rafn Ólafsson Skoðun Afsláttur af mannréttindum Heiða Ingimarsdóttir Skoðun Bætum umhverfið svo öll börn geti blómstrað Kristín Kolbrún Kolbeinsdóttir Waage Skoðun Útrýmum kjaragliðnun Jónína Björk Óskarsdóttir Skoðun
Það er engum vafa undirorpið að heimsmyndin breyttist töluvert við atburðina í New York og Washington í september 2001. Heimsbyggðin hrökk svo sannarlega við, á því er enginn vafi, en hins vegar verður það vafasamara eftir því sem tíminn líður hvort viðbrögðin við þessum voðaviðburðum síðla sumars fyrir tæpum fimm árum hafi verið rétt. Það er ekki aðeins hér í Evrópu sem þessi hugsun verður æ áleitnari, heldur líka í því landi þar sem atburðirnir áttu sér stað - Bandaríkjunum. Uppljóstranir bresku lögreglunnar í síðustu viku urðu líka til þess að margir hrukku við, ekki aðeins þeir sem voru á leið yfir Atlantsahafið flugleiðis milli Bandaríkjanna og Bretlands, heldur heimsbyggðin öll. Enn sem komið er liggja fremur fáar staðreyndir opinberlega fyrir á borðinu varðandi þetta mál, að því frátöldu að á þriðja tug manna hefur verið handtekinn og fleiri munu vera í sigtinu. Þá hafa yfirvöld skýrt frá því að ætlunin hafi verið að eins konar generalprufa hryðjuverkamannanna hafi átt að vera nú um helgina og upplýst hefur verið á hvern hátt illvirkjarnir hafi ætlað að koma áformum sínum í framkvæmd. Viðbrögðin við þessum áformum létu ekki á sér standa hvað varðar aukna öryggisgæslu í flugi, og þau eru ekki einangruð við þá sem leika aðalhlutverkin í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum, Breta og Bandaríkjamenn, heldur snertir þetta bókstaflega alla sem ferðast flugleiðis í heiminum og reyndar miklu fleiri. Þess vegna er það ekki óeðlilegt að fleiri vilji hafa áhrif á og láta í ljósi skoðanir sínar á hryðjuverkum og viðbrögðum við þeim. Baráttan gegn nasismanum og kommúnismanum tók sinn toll og þar áttust við öflug herveldi. Hryðjuverkamennirnir vega hins vegar úr launsátri og það hefur reynst ákaflega erfitt að uppræta þær hreyfingar sem að baki þeim eru eða ná til höfuðpaura þeirra, þótt mörgum sprengjum hafi verið beint að þeim. Og þrátt fyrir að Saddam Hussein sé nú undir lás og slá halda hryðjuverkin áfram. Það vantar kannski meiri umræðu, meiri samskipti og meiri skilning á báða bóga til þess að einhver árangur verði í hryðjuverkastríðinu. Í það minnsta virðist sem innrásin í Írak hafi langt í frá náð tilgangi sínum, það sýna uppljóstranir bresku lögreglunnar. Þótt við séum fámenn eyja norður í hafi hafa þessir atburðir allir áhrif á daglegt líf okkar. Undan því verður ekki komist. Við þurfum því að hafa varann á og vera við ýmsu búin. Þannig er bara veröldin i dag. Við þurfum ekki bara að vera viðbúin því að hafa hemil á fáum og tiltölulega friðsömum mótmælendum á hálendinu, heldur að vera viðbúin verri uppákomum en það. Vonandi þurfum við þó ekki að hafa lögreglumenn í skotheldum vestum og með spenntar hríðskotabyssur innan um flugfarþega sem eru að leggja upp í langferð, enda er spurning hvaða tilgangi slíkur vopnaburður þjónar. Í kjölfar uppljóstrana bresku lögreglunnar hefur mörgum líka ofboðið að sjá allan viðbúnaðinn á flugvöllunum, ekki aðeins lögregluþjóna með alvæpni, heldur líka hermenn í fullum skrúða koma akandi á brynvörðum bílum og skriðdrekum að flugstöðvunum. Hvernig færi ef einhverjum af þessum vopnum yrði nú beitt, hugsa margir, yrðu það ekki fyrst og fremst saklausir borgarar sem yrðu fórnarlömbin, eins og reyndin hefur orðið í ófriði og styrjöldum í aldanna rás?