Jöfnuður, saga og stjórnmál 24. ágúst 2006 08:25 Skipting auðs og tekna á fyrri öldum er hulin þéttri þoku, því að engar nothæfar staðtölur eru til um ójöfnuð milli manna á fyrri tíð. Við vitum, að himinn og haf skildu að lífskjör höfðingja og þræla til forna, en hversu mikill var munurinn? Tífaldur? Hundraðfaldur? Þúsundfaldur? Það er ekki vitað. Við vitum, að höfðingjar miðalda bárust sumir mikið á, alþýðan lapti dauðann úr skel, og bændur héldu hjúum í vistarbandi fram undir aldamótin 1900. Vistarbandið jaðraði við þrælahald og lagðist ekki af fyrr en eftir að aðrar þjóðir höfðu afnumið þrælahald með lögum. Fátæktin þrúgaði þjóðlífið. En enginn veit, hversu mikill ójöfnuðurinn var milli manna á miðöldum á mælikvarða nútímans. Fátækt og ójöfnuður fyrri tíðar voru aðaluppspretta nokkurra helztu félagshreyfinga tuttugustu aldar, þar á meðal verklýðshreyfingar og jafnaðarmannaflokka, sem hafa haft mikil áhrif á félagsþróun Evrópu og um allan heim. Það var að miklu leyti fyrir þeirra tilverknað, að Evrópulöndin byggðu upp stöndug velferðarríki á öldinni sem leið, hvert eftir sínu höfði. Markmiðið var að útrýma fátækt og tryggja meiri jöfnuð milli þegnanna en áður hafði tíðkazt. Þetta tókst að miklu leyti innan ramma blandaðs markaðsbúskapar. Önnur iðnríki fylgdu fordæmi Evrópulandanna, þar á meðal Bandaríkin og Japan. Í Japan ríkir svipaður jöfnuður tekna milli manna og í Svíþjóð. Japanar hafa reist sér breiðvirkt, ríkt og friðsælt velferðarríki fyrir samstilltan tilverknað einkafyrirtækja og almannavalds. Nýlegar rannsóknir á þróun tekjuskiptingar í Bandaríkjunum sýna, að þar dró saman með ríkum og fátækum frá 1930 til 1980. Stefna stjórnvalda virðist hafa ráðið miklu um þessa þróun. Demókratinn Franklin Roosevelt var kjörinn forseti landsins 1932. Kreppan mikla var þá nýskollin á, og Roosevelt beitti sér fyrir kjarabótum handa miðstéttinni. Hann var hástéttarmaður og uppskar óvild margra annarra hástéttarmanna, sem töldu hann ekki sýna tilhlýðilega stéttvísi í störfum sínum. Ég fagna hatri þeirra, sagði Roosevelt og hélt sínu striki, og það gerðu eftirmenn hans úr báðum flokkum. Paul Krugman prófessor rifjaði það upp í dálki sínum í New York Times um daginn, hvað repúblikaninn Dwight Eisenhower, forseti Bandaríkjanna 1953-1960, hafði að segja um þá flokksbræður sína, sem vildu rífa félagsumbætur Roosevelts upp með rótum: Þeir eru sárafáir, og þeir eru fífl, sagði Eisenhower. Síðan 1980 hefur ójöfnuður um landið aukizt til muna. Til marks um það má hafa hlutdeild þess hundraðshluta mannfjöldans, sem mestar hefur tekjurnar, í þjóðartekjum. Þegar Roosevelt varð forseti 1933, féll sjöttungur þjóðartekna í skaut 1% þjóðarinnar. Tekjuskiptingin jafnaðist svo með tímanum, að árið 1980 féll tólfti partur þjóðarteknanna í skaut 1% þjóðarinnar. Síðan 1980 hefur dæmið snúizt við, svo að árið 2000 var aftur svo komið, að sá hundraðshluti mannfjöldans, sem mestar hafði tekjurnar, tók til sín sjöttunginn af þjóðartekjum Bandaríkjanna. Bilið hefur haldið áfram að breikka. Hvað hefur gerzt? Þrjár skýringar koma helzt til álita. Í fyrsta lagi hafa tækniframfarir aukið eftirspurn eftir vel menntuðu vinnuafli og breikkað bilið milli hálaunafólks og láglauna. Í öðru lagi hafa síaukin heimsviðskipti veikt stöðu ýmiss launafólks, einkum láglaunafólks, þar eð mörg störf hafa flutzt til Indlands og annarra landa, þar sem vinnulaun eru miklu lægri en vestra. Í þriðja lagi var Ronald Reagan kjörinn forseti Bandaríkjanna 1980, hann hafði áður verið demókrati í anda Roosevelts og skipti síðan um skoðun og flokk og beitti sér í embætti fyrir verulegri lækkun skatta og öðrum lagabreytingum, sem drógu úr jöfnunaráhrifum ríkisbúskaparins. George Bush, núverandi forseti og flokksbróðir Reagans, hefur gengið enn lengra á þessari braut með fulltingi þingsins, sem hefur lotið stjórn repúblikana síðan 1994. Fjórða hvert bandarískt barn býr við fátækt samkvæmt viðteknum skilgreiningum á móti tuttugasta hverju barni í Svíþjóð. Repúblikönum er því ekki einum um það að kenna, hversu ójöfnuður hefur ágerzt í Bandaríkjunum síðan 1980, enda hefur þróun tekjuskiptingar á Bretlandi frá 1930 verið áþekk þróuninni vestra. Þó er sá munurinn á, að jöfnuður tekna milli manna á Bretlandi hefur síðan 1965 verið mun meiri en í Bandaríkjunum. Um Ísland er engum haldbærum upplýsingum til að dreifa um tekjuskiptingu langt aftur í tímann. Brýnt er að bæta úr því. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Rétt tímasetning skiptir öllu máli Ole Anton Bieltvedt Skoðun Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun Tillaga um endurskoðun á virðisaukaskattskerfi deilihagkerfisins Þórir Garðarsson Skoðun Sjálfræðissvipting þjóðar Ægir Örn Arnarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Heimur hins sterka og óvissan framundan Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Emma Lazarus og Frelsisstyttan Atli Harðarson Skoðun Viðhorf Leifur Helgi Konráðsson Skoðun Umsögn um breytingar á ýmsum lögum vegna einföldunar og samræmingar leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála Erla Björk Þorgeirsdóttir Skoðun
Skipting auðs og tekna á fyrri öldum er hulin þéttri þoku, því að engar nothæfar staðtölur eru til um ójöfnuð milli manna á fyrri tíð. Við vitum, að himinn og haf skildu að lífskjör höfðingja og þræla til forna, en hversu mikill var munurinn? Tífaldur? Hundraðfaldur? Þúsundfaldur? Það er ekki vitað. Við vitum, að höfðingjar miðalda bárust sumir mikið á, alþýðan lapti dauðann úr skel, og bændur héldu hjúum í vistarbandi fram undir aldamótin 1900. Vistarbandið jaðraði við þrælahald og lagðist ekki af fyrr en eftir að aðrar þjóðir höfðu afnumið þrælahald með lögum. Fátæktin þrúgaði þjóðlífið. En enginn veit, hversu mikill ójöfnuðurinn var milli manna á miðöldum á mælikvarða nútímans. Fátækt og ójöfnuður fyrri tíðar voru aðaluppspretta nokkurra helztu félagshreyfinga tuttugustu aldar, þar á meðal verklýðshreyfingar og jafnaðarmannaflokka, sem hafa haft mikil áhrif á félagsþróun Evrópu og um allan heim. Það var að miklu leyti fyrir þeirra tilverknað, að Evrópulöndin byggðu upp stöndug velferðarríki á öldinni sem leið, hvert eftir sínu höfði. Markmiðið var að útrýma fátækt og tryggja meiri jöfnuð milli þegnanna en áður hafði tíðkazt. Þetta tókst að miklu leyti innan ramma blandaðs markaðsbúskapar. Önnur iðnríki fylgdu fordæmi Evrópulandanna, þar á meðal Bandaríkin og Japan. Í Japan ríkir svipaður jöfnuður tekna milli manna og í Svíþjóð. Japanar hafa reist sér breiðvirkt, ríkt og friðsælt velferðarríki fyrir samstilltan tilverknað einkafyrirtækja og almannavalds. Nýlegar rannsóknir á þróun tekjuskiptingar í Bandaríkjunum sýna, að þar dró saman með ríkum og fátækum frá 1930 til 1980. Stefna stjórnvalda virðist hafa ráðið miklu um þessa þróun. Demókratinn Franklin Roosevelt var kjörinn forseti landsins 1932. Kreppan mikla var þá nýskollin á, og Roosevelt beitti sér fyrir kjarabótum handa miðstéttinni. Hann var hástéttarmaður og uppskar óvild margra annarra hástéttarmanna, sem töldu hann ekki sýna tilhlýðilega stéttvísi í störfum sínum. Ég fagna hatri þeirra, sagði Roosevelt og hélt sínu striki, og það gerðu eftirmenn hans úr báðum flokkum. Paul Krugman prófessor rifjaði það upp í dálki sínum í New York Times um daginn, hvað repúblikaninn Dwight Eisenhower, forseti Bandaríkjanna 1953-1960, hafði að segja um þá flokksbræður sína, sem vildu rífa félagsumbætur Roosevelts upp með rótum: Þeir eru sárafáir, og þeir eru fífl, sagði Eisenhower. Síðan 1980 hefur ójöfnuður um landið aukizt til muna. Til marks um það má hafa hlutdeild þess hundraðshluta mannfjöldans, sem mestar hefur tekjurnar, í þjóðartekjum. Þegar Roosevelt varð forseti 1933, féll sjöttungur þjóðartekna í skaut 1% þjóðarinnar. Tekjuskiptingin jafnaðist svo með tímanum, að árið 1980 féll tólfti partur þjóðarteknanna í skaut 1% þjóðarinnar. Síðan 1980 hefur dæmið snúizt við, svo að árið 2000 var aftur svo komið, að sá hundraðshluti mannfjöldans, sem mestar hafði tekjurnar, tók til sín sjöttunginn af þjóðartekjum Bandaríkjanna. Bilið hefur haldið áfram að breikka. Hvað hefur gerzt? Þrjár skýringar koma helzt til álita. Í fyrsta lagi hafa tækniframfarir aukið eftirspurn eftir vel menntuðu vinnuafli og breikkað bilið milli hálaunafólks og láglauna. Í öðru lagi hafa síaukin heimsviðskipti veikt stöðu ýmiss launafólks, einkum láglaunafólks, þar eð mörg störf hafa flutzt til Indlands og annarra landa, þar sem vinnulaun eru miklu lægri en vestra. Í þriðja lagi var Ronald Reagan kjörinn forseti Bandaríkjanna 1980, hann hafði áður verið demókrati í anda Roosevelts og skipti síðan um skoðun og flokk og beitti sér í embætti fyrir verulegri lækkun skatta og öðrum lagabreytingum, sem drógu úr jöfnunaráhrifum ríkisbúskaparins. George Bush, núverandi forseti og flokksbróðir Reagans, hefur gengið enn lengra á þessari braut með fulltingi þingsins, sem hefur lotið stjórn repúblikana síðan 1994. Fjórða hvert bandarískt barn býr við fátækt samkvæmt viðteknum skilgreiningum á móti tuttugasta hverju barni í Svíþjóð. Repúblikönum er því ekki einum um það að kenna, hversu ójöfnuður hefur ágerzt í Bandaríkjunum síðan 1980, enda hefur þróun tekjuskiptingar á Bretlandi frá 1930 verið áþekk þróuninni vestra. Þó er sá munurinn á, að jöfnuður tekna milli manna á Bretlandi hefur síðan 1965 verið mun meiri en í Bandaríkjunum. Um Ísland er engum haldbærum upplýsingum til að dreifa um tekjuskiptingu langt aftur í tímann. Brýnt er að bæta úr því.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun
Umsögn um breytingar á ýmsum lögum vegna einföldunar og samræmingar leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála Erla Björk Þorgeirsdóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun
Umsögn um breytingar á ýmsum lögum vegna einföldunar og samræmingar leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála Erla Björk Þorgeirsdóttir Skoðun