Í síðustu viku stóð ráðgjafarfyrirtækið Nordic eMarketing fyrir mikilli ráðstefnu og sýningu þar sem fjallað var um markaðssetningu og samskipti á netinu. Var þar meðal annars tekið fyrir með hvaða ráðum fyrirtæki geta gert sig sýnilegri á internetinu en þau þurfa að leita annarra leiða en venjuleg fyrirtæki í því miði að ná til síns markhóps.

Sveinn S. Kjartansson, framkvæmdastjóri ráðstefnunnar, segir fólk frekar leita eftir lausnum, gæðum og verði heldur en merkjum þegar það verslar á internetinu. "Það er algengt að fólk fari frekar á síður þar sem hægt er að bera saman þessa hluti í stað þess að fara beint inn á síðu ákveðins fyrirtækis. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera vel sýnileg, jafnvel þótt um sé að ræða stór og þekkt merki."

Sveinn segir að uppselt hafi verið á ráðstefnuna, enda hafi fjölmargir góðir fyrirlesarar komið þar fram. Meðal þeirra voru nokkrir sem telja megi til stórstjarna í markaðssetningu á netinu. Meðal stjarnanna voru Brian frá Google, framkvæmdastjóri vefgreiningardeildar Evrópu, Austurlanda fjær og Afríku, Ben Carlson, framkvæmdastjóri Ad Center hjá Microsoft og John Ricardi, vörustjóri Yahoo! Search.