Handbolti

Alfreð er einn besti þjálfari heims

Alfreð Gíslason er að gera frábæra hluti með Gummersbach.
Alfreð Gíslason er að gera frábæra hluti með Gummersbach. fréttablaðið/bongarts

Gengi Íslendingaliðsins Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í vetur hefur vakið verðskuldaða athygli enda var ekki búist við sérstaklega miklu af liðinu fyrir tímabilið. Miklar mannabreytingar áttu sér stað hjá félaginu og Alfreð Gíslason þjálfari sagði í viðtali við Fréttablaðið á dögunum að hann væri sáttur tækist liðinu að ná þriðja sæti í deildinni.



Gummersbach er nú á toppi deildarinnar og ósigrað í Meistaradeildinni. Hans-Peter Krämer, stjórnarformaður félagsins, er hæstánægður með árangurinn og játar það fúslega að hann átti ekki von á slíku fyrir tímabilið.

„Stjórnin er furðu lostin yfir þvi hversu vel gengur. Þetta gengi er eitthvað sem við áttum ekki von á. Aðalástæðan fyrir þessu góða gengi er þjálfarinn Alfreð Gíslason sem að mínu mati er einn besti þjálfari heims,“ sagði Krämer við þýska netmiðilinn Handball World.



Það eru svo sannarlega breyttir tímar hjá þessu fornfræga félagi því fyrir aðeins fimm árum rambaði Gummersbach á barmi gjaldþrots og framtíðin var síður en svo björt.

„Við getum hugsanlega blandað okkur í baráttuna um titilinn en við erum ekki sigurstranglegasta liðið í þeirri baráttu. Mér persónulega finnst við vera nokkuð á eftir Kiel eins og staðan er í dag.

Við stöndum samt betur að vígi þar sem Kiel á eftir að heimsækja okkur,“ sagði Krämer.

Með Gummersbach leika Íslendingarnir Guðjón Valur Sigurðsson, Róbert Gunnarsson, Sverre Andreas Jakobsson og Guðlaugur Arnarsson.- hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×