Heildarhagnaður 23 sparisjóða var rúmir 6,3 milljarðar króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins samkvæmt tölum frá Sambandi íslenskra sparisjóða. Til samanburðar nam hagnaður þessara sömu sparisjóða 9,5 milljörðum króna allt árið 2005.
SPRON skilaði 2,6 milljarða hagnaði á fyrri hluta ársins, SpKef hagnaðist um einn milljarð og SPM og SPV skiluðu um 600 milljóna króna hagnaði.
Veruleg aukning hagnaðar varð á þriðja ársfjórðungi 2006 hjá þeim sparisjóðum sem gert hafa upp. Þannig hagnaðist SPRON um tæpan 7,1 milljarð króna á ársfjórðungnum einum sem er meiri hagnaður en sparisjóðirnir 23 sýndu á fyrri hluta ársins.
Er því samanlagður hagnaður sparisjóðanna orðinn 13,4 milljarðar á þessu ári; fjörutíu prósentum meiri en allt árið í fyrra.