Fastir pennar

Léleg hús, spákaupmennska og bílastæðakverúlantar

Útlendingur sagði við mig um daginn að Reykjavík væri "borg byggingakrananna". En það er athugunarefni hversu mikið af því sem er verið að byggja nú í góðærinu er lélegt. Maður heyrir sögur af flausturslegum vinnubrögðum og hryllilega slæmum frágangi.

Ekki síst er maður hugsi yfir kassalaga húsum með flötum þökum sem er farið að reisa bæði í úthverfunum og á stangli um bæinn. Það er nákvæmlega ekkert lagt í þessar byggingar. Þær gætu eins verið í einhverju fátækrahverfi.

Svo hélt ég reyndar að Íslendingar hefðu komist að því fullkeyptu með flötu þökin á sjöunda og áttunda áratugnum. En allt fer víst í hring. Það hefur samt ekki breyst að veðráttan hérna heimilar ekki þetta byggingarlag.

--- --- ---

Það er náttúrlega freisting að byggja hratt og illa þegar verðið er svona hátt. Það er líka mikið um spákaupmennsku og brask á fasteignamarkaði. Verktakar og fasteignasalar maka krókinn. Þeir hugsa aðallega í prósentum og nýtingarhlutfalli. Fagurfræði, gott handverk og ending eru neðar á forgangslistanum.

Í þeirri merku bók Freakonomics stendur að fasteignasalar séu vita óþarfir - það sé ekki sé nokkur ástæða til að skipta við þá. Fasteignasalar vilja yfirleitt reyna að ganga frá kaupum eins fljótt og hægt er, þeir sjá lítinn hag í því að reyna að knýja fram hærra verð - það hækkar þóknun þeirra ekki svo mikið - heldur er arðbærara fyrir þá að hraða sér að ganga frá sölu og snúa sér svo að næstu eign. Að baki þessu liggja rannsóknir sem sýna að fasteignasalar selja hús sem þeir eiga sjálfir yfirleitt á hærra verði en eignir annarra.

--- --- ---

Verðmætamatið er líka oft dálítið ferkantað. Formaður félags fasteignasala gagnrýnir byggingu tónlistarhússins við höfnina, segir að borgin hefði getað fengið miklu hærra verð fyrir lóðina. Jú, verðið hefði ábyggilega getað verið hærra ef reist hefði verið verslunarmiðstöð eða röð háhýsa. En nú er búið að ákveða að byggja tónlistarhús - fasteignakaupmenn bíða kannski ekki í biðröðum eftir að leggja aurana slíka í þessháttar menningarsetur.

Sérstaklega ekki af því að þetta hús verður að vera rosalega flott. Það má alls ekki klikka. Kassarnir sem eru að rísa út um alla borg eru víti til að varast.

--- --- ---

Eitt afbrigði þess sem kallast nimbyismi er bílastæðakverúlantisminn - sú ruglaða hugmynd að hægt sé að sjá öllum fyrir bílastæðum þar sem þeim þóknast að leggja. Í fáum borgum í heiminum fer meira flæmi undir samgöngumannvirki og bílastæði, en samt þykir ekki nóg að gert.

Sjálfur bý ég í hverfi þar sem er ekki alltaf hægt að fá bílastæði. Þegar ég flutti í húsið vissi ég að þetta gæti verið svona - ég gerði ekki ráð fyrir að hafa alltaf autt bílastæði fyrir utan dyrnar.

En ef ég legði ofuráherslu á að hafa bílastæði, þá myndi ég þurfa að flytja eitthvað annað. Það er einfalt. Þá væri heppilegra fyrir mig að búa í úthverfi.

--- --- ---

Hlutabréfamarkaðurinn hefur aðeins reist við í dag. Það er stundum fyndið að fylgjast með greiningardeildunum. Í gær sagði einn greiningardeildarmaðurinn að hlutabréfakaup séu langhlaup en ekki spretthlaup. En í dag eftir að bankarnir höfðu lækkað nokkuð segir sama greiningardeildin að nú sé kauptækifæri í bönkunum.

Skyldu það vera tækifæri fyrir langhlaupara eða spretthlaupara? Flestum ber jú saman um að markaðurinn hér sé enn á yfirsprengdu verði.

--- --- ---

Það eru ekki bara dönsk og norsk blöð sem fjalla um íslenska efnahagslífið. Hið virta blað Daily Telegraph gerir það að umfjöllunarefni í dag. Einn hagfræðingurinn sem blaðið talar við segir að íslenskt þjóðfélag sé einn vogunarsjóður - "the whole country has become a hedge fund".





×