Lífið

Djasssveifla í miðbænum

Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir sem syngur á Q bar í kvöld við undirleik þeirra Björns Thoroddsens gítarleikara og Jóns Rafnssonar bassaleikara.
Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir sem syngur á Q bar í kvöld við undirleik þeirra Björns Thoroddsens gítarleikara og Jóns Rafnssonar bassaleikara.

Egill Ólafsson vermdi heita sætið á Q-bar síðastliðið fimmtudagskvöld við góðar undirtektir áheyrenda. Í kvöld verður ekkert gefið eftir og mun söngdívan Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir stíga þar á stokk fyrir djassþyrsta borgarbúa sem á hverju fimmtudagskvöldi geta notið lifandi tónlistar í miðbænum.

„Heita sætið" á Q-bar hefur fest sig rækilega í sessi í hjörtum djassunnenda. Undanfarin fimmtudagskvöld hefur barinn verið þéttsetinn og stemningin hástemmd. Síðasta fimmtudag vermdi Egill Ólafsson „Heita sætið", söng þekkta slagara og skemmti gestum eins og honum einum er lagið. Söngkonan sem nú sest í sætið góða er enginn eftirbátur Egils. Það verður Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir sem syngur í kvöld við undirleik þeirra Björns Thoroddsens gítarleikara og Jóns Rafnssonar bassaleikara.

Guðlaug er landanum velkunn fyrir djasssöng. Hún lauk mastersprófi í djasssöng frá Konunglega tónlistarháskólanum í Haag árið 2003 og eftir að hún flutti heim stofnaði hún kvintett Guðlaugar Ólafsdóttur sem haldið hefur fjöldann allan af tónleikum og flutt sígild djasslög í bland við þekkt dægurlög. Guðlaug hefur komið fram með ýmsum hljómsveitum, tekið þátt í söngleikum og sungið lag eftir Geirmund Valtýsson í undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1993. Guðlaug starfar einnig sem söngkennari við djassdeild Tónlistarskóla FÍH.

Tónlistarflutningurinn hefst klukkan 22 á Q-bar við Ingólfsstræti og er aðgangur ókeypis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×