Hagnaður olíurisans BP nam 6,23 milljörðum bandaríkjadala eða tæpum 430 milljörðum íslenskra króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 3,6 prósenta samdráttur á milli ára. Hagnaður fyrir skatta nam hins vegar 6,9 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði tæpra 476 milljarða íslenskra króna, en það er 58 prósenta aukinga á milli ára. Helsta skýringin á auknum hagnaði liggur í sölu á eignum.
Forsvarsmenn olíurisans eru ánægðir með afkomuna enda hafa nokkuð vandamál plagað fyrirtækið að undanförnu. Þar á meðal er leki í olíuleiðslu í Alaska í sumar og sprenging í olíuhreinsunarstöð í Texas í Bandaríkjunum í mars á síðasta ári en afleiðingarnar voru þær að 15 manns létust. Lekinn í Alaska varð til þess að olíuframleiðsla fyrirtækisins þar dróst saman um þriðjung. Þá hafa stjórnendur fyrirtækisins jafnframt þurft að sæta rannsókn vegna samráðs um olíuverð.