Bíó og sjónvarp

Börnin í Breiðuvík á hvíta tjaldið

Bergsteinn Björgúlfsson. Er að klára heimildarmynd um barna-og unglingaheimilið í Breiðuvík sem hann hefur unnið að í fimm ár.
Bergsteinn Björgúlfsson. Er að klára heimildarmynd um barna-og unglingaheimilið í Breiðuvík sem hann hefur unnið að í fimm ár.

„Ég reikna með því að myndin verði frumsýnd um hvítasunnuhelgina,“ segir Bergsteinn Björgúlfsson sem er að leggja lokahönd á kvikmynd um barna-og unglingaheimilið í Breiðuvík en málefni þess hafa verið áberandi í fjölmiðlum að undanförnu. „Hún verður ekkert í líkingu við þá umfjöllun. Þar hefur fólk verið að smjatta á þessu og fleyta rjómann ofan af málinu,“ segir leikstjórinn.

Bergsteinn frétti fyrst af heimilinu í gegnum vin sinn, Inga Gunnar Jóhannesson, sem dvaldist stuttan tíma á gistiheimili í Breiðuvík þegar hann vann sem leiðsögumaður fyrir fimm árum síðan. „Húsráðandi sýndi honum fangaklefa heimilisins og hann sagði mér frá því. Ég fór að sjá þetta með mínum eigin augum og þannig byrjaði boltinn að rúlla,“ segir Bergsteinn.

Málið reyndist hins vegar síður en svo auðvelt í vinnslu. Fáir vildu tala við Bergstein um reynslu sína frá Breiðuvík og það var ekki fyrr en einn þeirra gaf sig að stíflan brast.

„Ég hef eiginlega talað við alla þá sem hafa hugsanlega einhverja reynslu þaðan,“ segir Bergsteinn. Og þá hefur hann jafnframt reynt að hafa uppá „verstu böðlunum“ eins og leikstjórinn orðar það en að sögn Bergsteins eru þeir flestir fallnir frá. „Við höfum jafnframt reynt að ná tali af börnum Þórhalls Hálfdánarsonar, forstöðumanns heimilisins, en þau vilja ekkert með okkur hafa og eru farin í felur,“ útskýrir Bergsteinn.

Þau Margrét Jónasdóttir og Kristinn Hrafnsson hafa verið Bergsteini innan handar og tekið viðtöl við fórnarlömbin. Bergsteinn býst við því að myndin eigi eftir vekja upp spurningar um hvernig þessi mál standi í dag. „Því þarna voru eyðilögð líf fjölda barna og unglinga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×