Leikreglukreppa 13. júní 2007 06:00 Nýir þingmenn hafa síðustu daga átt á kost á að láta ljós sitt skína. Illugi Gunnarsson notaði tækifærið til þess að brýna iðnaðarráðherra á hugmyndum um breytt lagaumhverfi í orkubúskapnum. Þar má enn finna leifar gamallar ríkisforræðishyggju sem stríðir gegn nútímaviðhorfum. Sannleikurinn er sá að löggjöfin á þessu sviði hefur veitt ríkisvaldinu opnar heimildir til þess að ráðast í framkvæmdir án þess að skeyta um almennar reglur um eignarrétt eða verðmyndun réttinda í vatnsafli eða jarðgufu. Þessi skipan mála eykur stórlega hættuna á alvarlegum árekstrum milli verndunar og nýtingar þessara auðlinda. Í þeim tilgangi að draga úr tilefnum til deilna um virkjanir beindi þingmaðurinn þremur umhugsunarefnum til nýja iðnaðarráðherrans. Í fyrsta lagi að takmarka sjálfvirka eignarnámsheimild ráðherra vegna virkjana í þágu stóriðju. Í öðru lagi að ríkisábyrgð á lántökum í þessu skyni hljóti að vera í hæsta máta umdeilanleg. Í þriðja lagi að leggja mat á verðmæti þeirra orkuréttinda sem eru í eigu ríkisins. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði í viðtali við Fréttablaðið af þessu tilefni að vald iðnaðarráðherra til að taka land og orkuréttindi eignarnámi ætti hugsanlega að færast til Alþingis og einskorðast við tilvik sem lúta að brýnum almannahagsmunum en ekki öflun raforku til stóriðju. Ráðherrann vill gefa sér allt kjörtímabilið til þess að meta málið og skoða alla hagsmuni. Ekki verður annað sagt en ráðherrann fari afar varlega í sakirnar. En því verður ekki á móti mælt að yfirlýsing hans er vísir að hugmyndafræðilegri breytingu á stefnu stjórnvalda. Mjór er mikils vísir. Í því ljósi hefur yfirlýsingin talsvert pólitískt gildi. Vitaskuld þarf að vanda til verksins. En ráðherrann yrði ekki sakaður um óðagot þó að hann einsetti sér að komast að niðurstöðu fyrr. Þegar skilningurinn er fyrir hendi er óþarfi að fresta áhrifum breytinga til næsta kjörtímabils. Satt best að segja er iðnaðarráðherranum vel trúandi til að ganga af meiri röskleik til verks en hann hefur lofað. Birtingarmynd leikreglukreppunnar er auðsæ þegar búið er að úrskurða ríkið eiganda að stórum hluta þeirra vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar sem fram til þessa hafa verið í einkaeign. Sú staða vekur upp þá spurningu hvort ríkið fer fram á sama verð fyrir réttindin og fyrri eigendur. Er hugsanlegt að ríkið geti fyrir hönd skattgreiðenda lækkað kröfurnar? Einsýnt er að röksemdafærsla fyrir því yrði vafningasöm. Ríkið verður því frammi fyrir matsnefndinni að rökstyðja eðlilegar kröfur skattborgaranna. Á sama tíma er fjármálaráðherra handhafi eina hlutabréfsins í Landsvirkjun. Í því hlutverki þarf hann gagnvart nefndinni að verja stöðu þegar gerðra orkusölusamninga. Þeir leyfa ekki greiðslur fyrir vatnsréttindin umfram brotabrotabrot af körfugerðinni. Hugsanlegt er að dómstólar hnekki ríkisvæðingu þessara vatnsréttinda. Það breytir þó ekki þeim grundvallarvanda sem hér er við að etja. Þessi leikregla um verðmyndun gengur einfaldlega ekki upp. Iðnaðarráðherrann þarf því að beina skarpri hugsun sinni að lausn á þessari leikreglukreppu ekki síður en hinni sem snýr að eignarnáminu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Nýir þingmenn hafa síðustu daga átt á kost á að láta ljós sitt skína. Illugi Gunnarsson notaði tækifærið til þess að brýna iðnaðarráðherra á hugmyndum um breytt lagaumhverfi í orkubúskapnum. Þar má enn finna leifar gamallar ríkisforræðishyggju sem stríðir gegn nútímaviðhorfum. Sannleikurinn er sá að löggjöfin á þessu sviði hefur veitt ríkisvaldinu opnar heimildir til þess að ráðast í framkvæmdir án þess að skeyta um almennar reglur um eignarrétt eða verðmyndun réttinda í vatnsafli eða jarðgufu. Þessi skipan mála eykur stórlega hættuna á alvarlegum árekstrum milli verndunar og nýtingar þessara auðlinda. Í þeim tilgangi að draga úr tilefnum til deilna um virkjanir beindi þingmaðurinn þremur umhugsunarefnum til nýja iðnaðarráðherrans. Í fyrsta lagi að takmarka sjálfvirka eignarnámsheimild ráðherra vegna virkjana í þágu stóriðju. Í öðru lagi að ríkisábyrgð á lántökum í þessu skyni hljóti að vera í hæsta máta umdeilanleg. Í þriðja lagi að leggja mat á verðmæti þeirra orkuréttinda sem eru í eigu ríkisins. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði í viðtali við Fréttablaðið af þessu tilefni að vald iðnaðarráðherra til að taka land og orkuréttindi eignarnámi ætti hugsanlega að færast til Alþingis og einskorðast við tilvik sem lúta að brýnum almannahagsmunum en ekki öflun raforku til stóriðju. Ráðherrann vill gefa sér allt kjörtímabilið til þess að meta málið og skoða alla hagsmuni. Ekki verður annað sagt en ráðherrann fari afar varlega í sakirnar. En því verður ekki á móti mælt að yfirlýsing hans er vísir að hugmyndafræðilegri breytingu á stefnu stjórnvalda. Mjór er mikils vísir. Í því ljósi hefur yfirlýsingin talsvert pólitískt gildi. Vitaskuld þarf að vanda til verksins. En ráðherrann yrði ekki sakaður um óðagot þó að hann einsetti sér að komast að niðurstöðu fyrr. Þegar skilningurinn er fyrir hendi er óþarfi að fresta áhrifum breytinga til næsta kjörtímabils. Satt best að segja er iðnaðarráðherranum vel trúandi til að ganga af meiri röskleik til verks en hann hefur lofað. Birtingarmynd leikreglukreppunnar er auðsæ þegar búið er að úrskurða ríkið eiganda að stórum hluta þeirra vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar sem fram til þessa hafa verið í einkaeign. Sú staða vekur upp þá spurningu hvort ríkið fer fram á sama verð fyrir réttindin og fyrri eigendur. Er hugsanlegt að ríkið geti fyrir hönd skattgreiðenda lækkað kröfurnar? Einsýnt er að röksemdafærsla fyrir því yrði vafningasöm. Ríkið verður því frammi fyrir matsnefndinni að rökstyðja eðlilegar kröfur skattborgaranna. Á sama tíma er fjármálaráðherra handhafi eina hlutabréfsins í Landsvirkjun. Í því hlutverki þarf hann gagnvart nefndinni að verja stöðu þegar gerðra orkusölusamninga. Þeir leyfa ekki greiðslur fyrir vatnsréttindin umfram brotabrotabrot af körfugerðinni. Hugsanlegt er að dómstólar hnekki ríkisvæðingu þessara vatnsréttinda. Það breytir þó ekki þeim grundvallarvanda sem hér er við að etja. Þessi leikregla um verðmyndun gengur einfaldlega ekki upp. Iðnaðarráðherrann þarf því að beina skarpri hugsun sinni að lausn á þessari leikreglukreppu ekki síður en hinni sem snýr að eignarnáminu.