Næstu níu ná til lands Jón Kaldal skrifar 21. september 2007 00:01 Íslenskir laganna verðir geta réttilega verið ánægðir með dagsverk gærdagsins. Aldrei áður hefur lögreglan lagt hald á jafn mikið magn af örvandi efnum og fundust í skútunni í Fáskrúðsfjarðarhöfn. Það er augljóst að stjórnendur löggæslumála hafa unnið gott starf við að nútímavæða ýmsa þætti í starfi lögregluliðs landsins. Aðgerðin sem náði hápunkti með handtöku skipverja skútunnar fyrir austan virðist bera öll merki fumlausra vinnubragða manna sem vita hvað þeir eru að gera. Ekki er síður til fyrirmyndar að lögreglan upplýsti almenning í gegnum fjölmiðla fljótt og vel um hvað var á seyði. Blaðamannafundurinn í gærmorgun var sá annar á stuttum tíma sem stjórnendur lögreglunnar hafa staðið fyrir þegar komið hafa upp mál sem gætu hæglega hefðu vakið óþarfa óvissu og ugg meðal fólks ef dregist hefði að gera grein fyrir þeim. Fyrra dæmið er harmleikurinn við Sæbraut í júlí þegar maður var skotinn til bana. Þessi hraða upplýsingagjöf er merki um breytta tíma og að gömul vinnubrögð hafi verið aflögð fyrir fullt og allt. Þetta eru jákvæðu hliðar þess grafalvarlega máls að tilraun hafi verið gerð til að smygla til landsins milli fimmtíu og sextíu kílóum af sterkum eiturlyfjum. Ríkislögreglustjóri vakti athygli á því í gær að Ísland er að mörgu leyti mjög vanbúið gagnvart því að loka sjóleiðum fíkniefnasmyglara til landsins. Hann benti á brýna þörf fyrir aukið eftirlit með landhelginni og höfnum. Hið sorglega er að draumurinn um að loka landinu fyrir ólöglegum fíkniefnum er örugglega tálsýn. Kaldhamraður veruleikinn segir okkur að á meðan markaður er fyrir eiturlyf mun verða framboð af þeim. Enda voru viðbrögð reyndustu manna í meðferðargeiranum á þá leið að þessi umfangsmikla aðgerð hefði takmörkuð áhrif á fíkniefnamarkaðinn. Í samtali við netmiðilinn Vísi sagði Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, til dæmis að reynslan sýndi að við aðstæður sem þessar hækkaði verð vímuefna í stuttan tíma en færi svo fljótt í sama far. Í því samhengi er rétt að hafa í huga þá þumalputtareglu, sem kunnáttumenn um fíkniefnamarkaðinn styðjast við, að lögreglyfirvöld ná aðeins að jafnaði einum tíunda af þeim fíkniefnum sem er reynt að smygla til landsins. Það þýðir að fyrir þá einu sendingu sem lögreglan stöðvaði í gær ná aðrar níu til lands. Þetta er sama staða og blasir við í baráttunni við ólögleg fíkniefni um allan heim. Að fenginni reynslu undanfarinna áratuga, þar sem neysla fíkniefna hefur haldið áfram að aukast sama hversu mikið magn lögreglan nær að klófesta, blasir við að núverandi aðferðir eru gagnslitlar. Það er kominn tími til að beina sjónum af mun meira afli að þeim sem misnota vímuefnin, en þó umfram allt að þeim sem eru útsettir fyrir fíkninni. Og eins og við vitum er þar nánast öll þjóðin undir, þótt flestir kjósi löglega vímuefnið sem ríkið selur. Eins og staðan er nú eru þeir sem neyta ólöglegu efnanna fyrir utan garðinn. Það er kominn tími til að huga að leiðum til að ná þeim inn fyrir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Íslenskir laganna verðir geta réttilega verið ánægðir með dagsverk gærdagsins. Aldrei áður hefur lögreglan lagt hald á jafn mikið magn af örvandi efnum og fundust í skútunni í Fáskrúðsfjarðarhöfn. Það er augljóst að stjórnendur löggæslumála hafa unnið gott starf við að nútímavæða ýmsa þætti í starfi lögregluliðs landsins. Aðgerðin sem náði hápunkti með handtöku skipverja skútunnar fyrir austan virðist bera öll merki fumlausra vinnubragða manna sem vita hvað þeir eru að gera. Ekki er síður til fyrirmyndar að lögreglan upplýsti almenning í gegnum fjölmiðla fljótt og vel um hvað var á seyði. Blaðamannafundurinn í gærmorgun var sá annar á stuttum tíma sem stjórnendur lögreglunnar hafa staðið fyrir þegar komið hafa upp mál sem gætu hæglega hefðu vakið óþarfa óvissu og ugg meðal fólks ef dregist hefði að gera grein fyrir þeim. Fyrra dæmið er harmleikurinn við Sæbraut í júlí þegar maður var skotinn til bana. Þessi hraða upplýsingagjöf er merki um breytta tíma og að gömul vinnubrögð hafi verið aflögð fyrir fullt og allt. Þetta eru jákvæðu hliðar þess grafalvarlega máls að tilraun hafi verið gerð til að smygla til landsins milli fimmtíu og sextíu kílóum af sterkum eiturlyfjum. Ríkislögreglustjóri vakti athygli á því í gær að Ísland er að mörgu leyti mjög vanbúið gagnvart því að loka sjóleiðum fíkniefnasmyglara til landsins. Hann benti á brýna þörf fyrir aukið eftirlit með landhelginni og höfnum. Hið sorglega er að draumurinn um að loka landinu fyrir ólöglegum fíkniefnum er örugglega tálsýn. Kaldhamraður veruleikinn segir okkur að á meðan markaður er fyrir eiturlyf mun verða framboð af þeim. Enda voru viðbrögð reyndustu manna í meðferðargeiranum á þá leið að þessi umfangsmikla aðgerð hefði takmörkuð áhrif á fíkniefnamarkaðinn. Í samtali við netmiðilinn Vísi sagði Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, til dæmis að reynslan sýndi að við aðstæður sem þessar hækkaði verð vímuefna í stuttan tíma en færi svo fljótt í sama far. Í því samhengi er rétt að hafa í huga þá þumalputtareglu, sem kunnáttumenn um fíkniefnamarkaðinn styðjast við, að lögreglyfirvöld ná aðeins að jafnaði einum tíunda af þeim fíkniefnum sem er reynt að smygla til landsins. Það þýðir að fyrir þá einu sendingu sem lögreglan stöðvaði í gær ná aðrar níu til lands. Þetta er sama staða og blasir við í baráttunni við ólögleg fíkniefni um allan heim. Að fenginni reynslu undanfarinna áratuga, þar sem neysla fíkniefna hefur haldið áfram að aukast sama hversu mikið magn lögreglan nær að klófesta, blasir við að núverandi aðferðir eru gagnslitlar. Það er kominn tími til að beina sjónum af mun meira afli að þeim sem misnota vímuefnin, en þó umfram allt að þeim sem eru útsettir fyrir fíkninni. Og eins og við vitum er þar nánast öll þjóðin undir, þótt flestir kjósi löglega vímuefnið sem ríkið selur. Eins og staðan er nú eru þeir sem neyta ólöglegu efnanna fyrir utan garðinn. Það er kominn tími til að huga að leiðum til að ná þeim inn fyrir.