Dagur án Sarkó Einar Már Jónsson skrifar 26. september 2007 00:01 Síðan Frakkar kusu Sarkozy í embætti forseta hafa þeir ekki haft neinn frið til að gleyma því og hugsa um annað, því Sarkozy er alls staðar og alltaf, hann er sýknt og heilagt í öllum fjölmiðlum, hvert sem höfði er snúið. Þegar hann fór í sumarfrí til eyjar við Atlantshafsströnd Bandaríkjanna nokkrum vikum eftir að kosningar vorsins voru afstaðnar, vonuðust menn líka til að fá eitthvert frí frá honum, en það fór á aðra leið. Ekki kom dagur án þess að fjölmiðlar greindu frá því að hann hefði skrifað bréf, látið frá sér fara yfirlýsingu, lent í handalögmálum við papparassa eða snætt hádegisverð með Bandaríkjaforseta. Svo andaðist erkibiskupinn fyrrverandi af París, þá sögðu fjölmiðlar frá því að Sarkozy hefði skrifað samúðarbréf, síðan að hann hefði tilkynnt að hann myndi koma sjálfur í jarðarförina, tekið flugvél til Parísar, setið við messu í Vorrarfrúarkirkju og flogið aftur til Bandaríkjanna. þannig leið vika eftir viku. Einu sinni var það í fréttunum, að þann dag hefði Sarkozy ekki gert nokkurn skapaðan hlut og var frá því skýrt ítarlega og í löngu máli; talið var upp allt sem hann hefði ekki gert, og var það löng þula. Fríið búiðAð lokum kom Sarkozy aftur til Frakklands, „eins og hvirfilbylur" sögðu blöð, og lýsti því yfir að fríinu væri lokið (hvaða fríi? spurðu menn), nú skyldu hendur látnar standa fram úr ermum. Þá varð sviplegt slys við strendur Bretaníuskaga, flutningaskip sigldi á fiskiskip og stímdi beint áfram. Skipstjórinn drukknaði en menn voru reiðir og sögðu að hægt hefði verið að bjarga honum ef flutningaskipið hefði ekki flýtt sér af slysstað. Skömmu síðar var þetta skip kyrrsett í franskri höfn, en áhöld voru um hvort hægt yrði að draga skipstjórann fyrir rétt í Frakklandi, þar sem hann sigldi undir fána Bahamaeyja eða einhvers álíka sjóveldis. En hvað um það, allt í einu var Sarkozy mættur við útför skipstjórans sem drukknaði, hann tók í höndina á ekkjunni og gaf yfirlýsingu. Svo var haldinn ríkisstjórnarfundur og ráðherrum sagt að taka til óspilltra málanna. En í hvert sinn sem sagt var frá ákvörðun eða einhver sérstök stefna boðuð var Sarkozy mættur í fjölmiðlum með boðskapinn. Ef fyrir kom að viðeigandi ráðherra var á undan, fékk hann umsvifalaust snuprur hjá Sarkozy; stundum varð ráðherrann að draga í land og éta allt ofan í sig aftur. Forsætisráðherrann var hreinlega sniðgenginn, enda lét Sarkozy þau orð falla að hann ætti ekki að gera annað en það sem honum væri sagt. Sagt var að hann væri farinn að velta því fyrir sér hvort embætti hans hefði verið lagt niður, en gleymst hefði að segja honum frá því. A.m.k. var svo að sjá að næstæðsti maður ríkisins væri ekki lengur forsætisráðherra heldur aðalritari forsetaembættisins, sem einnig var senditík forsetans og sagði ráðherrum fyrir verkum. Hann var eins og Daníel dyravörður í dómsmálaráðuneytinu í Reykjavík forðum daga, og því hefðu ráðherrarnir frönsku getað raulað eins og þá var gert:„Hver veit nær sorgar hefjast él/hver veit nær söðlar Daníel." Alnálægur SarkozySífellt bættist við þau afrek Sarkozys sem voru aðalfréttin á forsíðu: þegar allt var enn komið í hnút með stjórnarskrárnefnu Evrópu flaug hann til Berlínar og bjargaði málinu, hann kom því til leiðar að Libýumenn slepptu hinum langþjáðu búlgörsku hjúkrunarkonum og sendi konu sína til Tripoli til að sækja þær, hann sagði Angelu Merkel fyrir verkum... Sarkozy er alnálægur, hann er uppi og niðri og þar í miðju. Undan öllum þessum ósköpum er franskur almenningur að kikna. Og nú fyrir skömmu bárust þau tíðindi að sett hefðu verið á fót samtök sem ætluðu að berjast fyrir því að landsmenn fengju „einn dag án Sarkozys". Stefnt var að því að fyrir valinu yrði 30. nóvember, en þá er ár liðið síðan Sarkozy lýsti yfir framboði sínu. Þann dag skyldi hann sem sé ekki nefndur í neinum fjölmiðli, hvorki til ills né góðs, ekki skyldi fara frá fréttastofum ein einasta mynd, né heldur orð eða lína um gjörningar hans. Menn fengju að hvíla sig í algerri kyrrð. Ólíklegt er að þetta nái fram að ganga. En ef svo skyldi verða, er líklegt að forsetinn fari fram á eitthvað í sárabætur, og þá er kannske huggun fyrir hann að næsta ár er einum degi fleira, þá er hlaupár. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Fastir pennar Mest lesið Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Síðan Frakkar kusu Sarkozy í embætti forseta hafa þeir ekki haft neinn frið til að gleyma því og hugsa um annað, því Sarkozy er alls staðar og alltaf, hann er sýknt og heilagt í öllum fjölmiðlum, hvert sem höfði er snúið. Þegar hann fór í sumarfrí til eyjar við Atlantshafsströnd Bandaríkjanna nokkrum vikum eftir að kosningar vorsins voru afstaðnar, vonuðust menn líka til að fá eitthvert frí frá honum, en það fór á aðra leið. Ekki kom dagur án þess að fjölmiðlar greindu frá því að hann hefði skrifað bréf, látið frá sér fara yfirlýsingu, lent í handalögmálum við papparassa eða snætt hádegisverð með Bandaríkjaforseta. Svo andaðist erkibiskupinn fyrrverandi af París, þá sögðu fjölmiðlar frá því að Sarkozy hefði skrifað samúðarbréf, síðan að hann hefði tilkynnt að hann myndi koma sjálfur í jarðarförina, tekið flugvél til Parísar, setið við messu í Vorrarfrúarkirkju og flogið aftur til Bandaríkjanna. þannig leið vika eftir viku. Einu sinni var það í fréttunum, að þann dag hefði Sarkozy ekki gert nokkurn skapaðan hlut og var frá því skýrt ítarlega og í löngu máli; talið var upp allt sem hann hefði ekki gert, og var það löng þula. Fríið búiðAð lokum kom Sarkozy aftur til Frakklands, „eins og hvirfilbylur" sögðu blöð, og lýsti því yfir að fríinu væri lokið (hvaða fríi? spurðu menn), nú skyldu hendur látnar standa fram úr ermum. Þá varð sviplegt slys við strendur Bretaníuskaga, flutningaskip sigldi á fiskiskip og stímdi beint áfram. Skipstjórinn drukknaði en menn voru reiðir og sögðu að hægt hefði verið að bjarga honum ef flutningaskipið hefði ekki flýtt sér af slysstað. Skömmu síðar var þetta skip kyrrsett í franskri höfn, en áhöld voru um hvort hægt yrði að draga skipstjórann fyrir rétt í Frakklandi, þar sem hann sigldi undir fána Bahamaeyja eða einhvers álíka sjóveldis. En hvað um það, allt í einu var Sarkozy mættur við útför skipstjórans sem drukknaði, hann tók í höndina á ekkjunni og gaf yfirlýsingu. Svo var haldinn ríkisstjórnarfundur og ráðherrum sagt að taka til óspilltra málanna. En í hvert sinn sem sagt var frá ákvörðun eða einhver sérstök stefna boðuð var Sarkozy mættur í fjölmiðlum með boðskapinn. Ef fyrir kom að viðeigandi ráðherra var á undan, fékk hann umsvifalaust snuprur hjá Sarkozy; stundum varð ráðherrann að draga í land og éta allt ofan í sig aftur. Forsætisráðherrann var hreinlega sniðgenginn, enda lét Sarkozy þau orð falla að hann ætti ekki að gera annað en það sem honum væri sagt. Sagt var að hann væri farinn að velta því fyrir sér hvort embætti hans hefði verið lagt niður, en gleymst hefði að segja honum frá því. A.m.k. var svo að sjá að næstæðsti maður ríkisins væri ekki lengur forsætisráðherra heldur aðalritari forsetaembættisins, sem einnig var senditík forsetans og sagði ráðherrum fyrir verkum. Hann var eins og Daníel dyravörður í dómsmálaráðuneytinu í Reykjavík forðum daga, og því hefðu ráðherrarnir frönsku getað raulað eins og þá var gert:„Hver veit nær sorgar hefjast él/hver veit nær söðlar Daníel." Alnálægur SarkozySífellt bættist við þau afrek Sarkozys sem voru aðalfréttin á forsíðu: þegar allt var enn komið í hnút með stjórnarskrárnefnu Evrópu flaug hann til Berlínar og bjargaði málinu, hann kom því til leiðar að Libýumenn slepptu hinum langþjáðu búlgörsku hjúkrunarkonum og sendi konu sína til Tripoli til að sækja þær, hann sagði Angelu Merkel fyrir verkum... Sarkozy er alnálægur, hann er uppi og niðri og þar í miðju. Undan öllum þessum ósköpum er franskur almenningur að kikna. Og nú fyrir skömmu bárust þau tíðindi að sett hefðu verið á fót samtök sem ætluðu að berjast fyrir því að landsmenn fengju „einn dag án Sarkozys". Stefnt var að því að fyrir valinu yrði 30. nóvember, en þá er ár liðið síðan Sarkozy lýsti yfir framboði sínu. Þann dag skyldi hann sem sé ekki nefndur í neinum fjölmiðli, hvorki til ills né góðs, ekki skyldi fara frá fréttastofum ein einasta mynd, né heldur orð eða lína um gjörningar hans. Menn fengju að hvíla sig í algerri kyrrð. Ólíklegt er að þetta nái fram að ganga. En ef svo skyldi verða, er líklegt að forsetinn fari fram á eitthvað í sárabætur, og þá er kannske huggun fyrir hann að næsta ár er einum degi fleira, þá er hlaupár.