Miðvörðurinn Fabio Cannavaro hjá Real Madrid segir sína menn ekki ætla að falla í þá gryfju að verja forskot sitt þegar þeir sækja Bayern Munchen heim annað kvöld. Real hefur 3-2 forystu eftir fyrri leikinn á Spáni en liðið hefur ekki riðið feitum hesti frá síðustu viðureignum sínum í Munchen.
Real Madrid náði 3-1 í hálfleik forystu gegn Bayern í fyrri leiknum í Madrid, en gestirnir áttu þann síðari og voru í raun óheppnir að jafna ekki metin. Cannavaro segir nauðsynlegt fyrir Real að ná að skora annað kvöld.
"Við verðum að skora mark í Munchen, því ef við sitjum til baka erum við dauðadæmdir. Við verðum þvert á móti að reyna að sækja og skora mark og ég er ekki frá því að við komumst áfram í keppninni," sagði leikmaður ársins 2006 í samtali við Marca.
Real Madrid nægir jafntefli í síðari leiknum en nífaldir Evrópumeistararnir hafa tapað sjö af síðustu átta leikjum sínum í Munchen og gert eitt jafntefli þar á milli. Real sló Bayern út úr Meistaradeildinni bæði árið 2000 og 2002.