Þýski landsliðsmarkvörðurinn Jens Lehmann hjá Arsenal útilokar ekki að spila þangað til hann verður fertugur og verða jafnvel með þýska landsliðinu á HM í Suður-Afríku árið 2010. Hann segist ekki sjá neina beina arftaka sína hjá landsliðinu í dag.
"Ég hef ekki sett mér ákveðið markmið í huga þegar kemur að því að leggja hanskana á hilluna og því er alveg hægt að hugsa sér að spila á HM 2010," sagði Lehmann og bætti við að efnilegustu markverðir Þýskalands í dag, þeir Manuel Neuer hjá Schalke og Rene Adler hjá Leverkusen ættu enn nokkuð í land með að teljast markverðir í landsliðsklassa.
"Þeir eiga sannarlega framtíðina fyrir sér, en þeir verða nú að spila vel í heilt tímabil áður en hægt er að tala um landsliðið," sagði Lehmann í samtali við þýska dagblaðið Bild.