Hlutabréfavísitölur hafa lækkað víða um heim í dag í kjölfar lækkunar á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum á föstudag en fjárfestar óttast að óróleiki á fjármálamörkuðum geti dregið úr hagvexti. Gengi bandaríkjadals er sömuleiðis komið í lægstu lægðir gagnvart evru.
Þá óttast sumir, að öll áhrif af fasteignalánaskellinum vestanhafs séu komin í ljós.
Lækkanahrinan hófst strax við opnun fjármálamarkaða í Asíu í gærkvöldi en Nikkei-vísitalan lækkaði um 2,2 prósent þegar viðskiptum lauk.
Markaðir eru sömuleiðis flestir á rauðu í Evrópu en FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 1,5 prósent það sem af er dags, hin þýska Dax um rúm 1,3 og franska Cac 40-vísitalan hefur lækkað um 1,6 prósent.
Þá fara Norðurlöndin ekki varhluta af lækkanahrinunni. Hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn hefur lækkað um rúm 1,4 prósent, í Svíþjóð um 2,6 prósent og vísitalan í kauphöllinni í Ósló í Noregi hefur lækkað um 2,33 prósent.
Skellur var á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum á föstudag en þar í landi féllu hlutabréfavísitölur um rúm tvö prósent. Það markaði tuttugu ára afmæli svarta mánudagsins svokallaða í Bandaríkjunum árið 1987 þegar Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 23 prósent á einum degi.